149. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[20:14]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Svo ég gleymi því ekki: Já, það er sem sagt þriðjungs aukning ríkisútgjalda á mann á föstu verðlagi á hvern íbúa landsins, úr 1,5 milljónum á föstu verðlagi í 2,3 milljónir, ef ég man þetta rétt.

Það er alveg rétt að það er margt að breytast í hagkerfinu. Hv. þingmaður segir að ég sé svartsýnn. Það er alveg rétt, þ.e. ég er reyndar mjög bjartsýnn maður að eðlisfari, en ég hef alltaf talið betra að nálgast þessi viðfangsefni, forsendur í ríkisfjármálunum, með heldur svartsýnum hætti en treysta því síðan að það geti mögulega farið betur en maður væntir, þannig að við séum alla vega búin undir verri þróun.

Það er alveg rétt að staða okkar í efnahagslífinu er að mörgu leyti fordæmalaus varðandi viðskiptaafgang í gegnum alla þessa uppsveiflu sem við höfum aldrei upplifað áður og það er rétt að við erum með nettó jákvæða erlenda stöðu sem hefur ekki gerst áður í okkar sögu. Auðvitað er þetta merki um mun meira heilbrigði í hagkerfinu en var t.d. fyrir áratug síðan. Ég hef aldrei óttast, og hef margoft sagt það í þessari svartsýni minni, annað hrun eins og varð hér 2008 og 2009 og tel það nær óhugsandi við núverandi kringumstæður.

Það er líka ágætt að hafa það í huga að í hverri einustu uppsveiflu höfum við sagt: Í þetta skipti er þetta allt öðruvísi en síðast. Það hefur kannski að hluta til ræst en að hluta til ekki. Það má muna það að 2000–2001 voru internetið og tæknibyltingar að gerbreyta samsetningu hagkerfisins en það reyndust vera minni áhrif af því en við ætluðum. Bankakerfið varð nýr fótur undir hagkerfinu hjá okkur (Forseti hringir.) fyrir áratug síðan, en það hvarf. Ég óttast ekkert slíkt varðandi ferðaþjónustuna, en það er ágætt að hafa það í huga að hlutir geta líka þróast til verri vegar og þá þarf að hafa svigrúm til að mæta því.