149. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[20:16]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég deili áhuga hv. þingmanns á efnahagsmálum í sögulegu samhengi og velti þessu oft fyrir mér og reyni að ná utan um hlutina.

Það er svolítið áhugavert að hugsa um það sem kom fram í máli hv. þingmanns fyrr í ræðu, að ríkisútgjöldin hafa hækkað um 33% á þessu tímabili, 1991–2009. Það skekkir reyndar svolítið myndina að hafa árið 2009 inni í þessu vegna þess að ef við tökum árin frá 1991–2008, (ÞorstV: 2008.) 2008, einmitt, þá er raunhagvöxtur í samfélaginu á mann sirka þessi tala. Þetta fylgist bara að, raunhagvöxturinn á mann af vergri landsframleiðslu á þessu tímabili. Þær tölur fylgjast að og þær gera það almennt í sama samhengi. Það væri áhugavert í því samhengi að skoða 2009–2018 með sams konar hugmyndafræði og sjá hvernig þetta hefur síðan skilað sér vegna þess að sögulega samhengið hefur yfirleitt verið þannig, og gerist þarna 1991–2008, þetta fylgist nokkurn veginn að, það er annars vegar raunvöxtur ríkisútgjalda og síðan aftur raunvöxtur á mann, þ.e. per capita, í raunvexti í hagsveiflunni.

Ég vildi bara koma þessu að og hvort hann hefði sett þetta í samhengi við það þegar hann er að tala um hækkun ríkisútgjalda frá 1991–2008 við raunverulega efnahagslega þróun í landinu á sama tíma. Yfirleitt er þetta þannig að það leitar að einhverju jafnvægi og þessi raunvöxtur í hagkerfinu leitar yfirleitt yfir í ríkisútgjöldin og til íbúa landsins að einhverju leyti í gegnum þann þátt.