149. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[20:18]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni enn og aftur. Þetta er laukrétt, sem hv. þingmaður kemur inn á, að vissulega jókst landsframleiðsla á mann mjög mikið á þessu tímabili. Það endurspeglar þessi sveifluaukandi áhrif ríkisfjármálanna sem hafa alltaf verið hjá okkur. Ef við tökum 2008, sem var lokapunkturinn í þessari viðmiðun minni, þá var hagkerfið okkar í alveg fordómalausu ójafnvægi á þessum tíma. Við vorum búin að ganga í gegnum gríðarlega kröftuga uppsveiflu og þar hefðu öll varfærnissjónarmið átt að vera á lofti varðandi ríkisfjármálin, að demba þessu ekki út í ríkisútgjöldin. Það sást mjög vel að ríkisstjórnin sem tók síðan við horfði fram á óbreytt eða heldur lækkandi ríkisútgjöld á mann í gegnum niðursveifluna, nákvæmlega af því svigrúmið var minna en ekkert. Það er þetta sem hefur alltaf verið gagnrýnt með ríkisfjármálin, þessi klassíska keynesíska hagfræði, ýmsir svo sem á móti henni til þess að gera, en í jafn sveiflunæmu hagkerfi og okkar er svo mikilvægt að ríkissjóður sé aflögufær til að ráðast í opinberar framkvæmdir, jafnvel af miklum krafti á tímum efnahagslegrar niðursveiflu, en sé ekki alltaf í sömu sporum og að við þurfum ekki að endurtaka þetta hagsveiflu eftir hagsveiflu, að við þurfum að skera niður bæði í opinberum framkvæmdum og jafnvel velferðarkerfinu sjálfu þegar kreppir jafnvel bara lítillega að, að þá sé ekkert svigrúm eftir.

Það er það sem ég er að gagnrýna með þessi útgjaldaáform, þótti reyndar gaman að því að hv. þingmaður sagði að við í fyrri ríkisstjórn hefðum verið með nær sömu „ambisjónir“ í útgjaldaaukningu og þessi ríkisstjórn, því að ég man ekki betur en í fjárlagaumræðunni fyrir ári hafi ríkisstjórnin einmitt talað fjálglega um það hversu mikið væri verið að bæta í frá fyrri ríkisstjórn.

En þetta (Forseti hringir.) er kjarni máls. Á endanum þurfum við að vera með betra jafnvægi. (Forseti hringir.) í ríkisfjármálum þegar kemur að þessum miklu hagsveiflum sem við göngum alltaf í gegnum.