149. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[20:21]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum að ræða hér fjárlög í 3. umr. Fjárlög gagnvart öryrkjum, minnihlutahópi sem hefur verið skilinn eftir undanfarin ár. Við getum farið allt aftur til þess tíma þegar hrunið varð, að þá voru skerðingar hjá öryrkjum, en þeim var líka lofað statt og stöðugt að það fyrsta sem yrði gert væri að leiðrétta þá hluti. Sú leiðrétting hefur ekki enn farið fram. Kjaragliðnun hefur orðið. Eftir hrunárin hafa allir fengið leiðréttingu kjara sinna eftir á nema lífeyrisþegar.

Ef við rýnum í núverandi fjárlög þá er það svolítið undarlegt að þar kemur skýrt fram að launavísitalan hefur hækkað um 6%. En hvað eiga öryrkjar að fá? Þeir eiga að fá 3,6%, en 2,9% út af verðhækkunum og verðbólgunni, en ef rétt væri ættu þeir að fá um 10%. Ef við tökum lögin eins og þau liggja fyrir og þar stendur skýrt — ég held að það hafi verið í tíð Davíðs Oddssonar sem þetta var sett á — að viðmið var á launaþróun þá. Í sambandi við hækkun hjá öryrkjum á annaðhvort að miða við launaþróun eða vísitölu neysluverðs. Annað hvort af þessu tvennu er vænlegri kostur, en því miður hefur alltaf verið tekinn sá kostur inn í öll fjárlög sem hafa komið öryrkjum illa.

Ef farið hefði verið, bara hreinlega farið eftir launaþróun eins og hún hefur verið undanfarin ár, þá væru öryrkjar mun betur staddir í dag en þeir eru. Ef við förum í launaþróunina eins og hún er, hreinlega frá 2010–2017, hefur lífeyrir á þeim tíma hækkað um 74.000 kr. eða rétt rúmlega, en þingfararkaupið hefur hækkað um 581.000 kr. 74.000 kr. til öryrkjanna, þingfararkaupið um 581.000 kr. frá 2010–2017. Hvað segir þetta okkur? Jú, þetta segir okkur hreinlega það að það sé vitlaust gefið. Og annað er líka sem sýnir fáránleikann í öllu þessu dæmi, það er þróun t.d. atvinnuleysisbóta. Atvinnuleysisbætur voru 227.000 kr. en eru núna 270.000. Þetta er 19% hækkun og þarna var verið að skerða atvinnuleysisbætur. Hækka þarf þær mun meira en öryrkja. Öryrkjar hafi alltaf verið á svipuðum stað.

Ef við tökum þetta enn lengra, ef við þökkum fyrir: Jú, við getum þakkað fyrir eitt, svona smá glætu í því frumvarpi sem á nú að fara að samþykkja, það er að hætta á að skatta og skerða styrki. Tökum samt og rifjum upp hvaða skerðingar eru enn inni hjá öryrkjum. Hvar er eitt ljótt dæmi? Það eru að koma jól. Hvað fáum við þingmenn í jólabónus? 181.000 kr. Hvað fékk ég sem lífeyrisþegi á launum frá lífeyrissjóðnum og Tryggingastofnun ríkisins í jólabónus síðast? 6.000 kr. Hvernig getur það verið að ég hafi fengið 6.000 kr. í jólabónus þegar Tryggingastofnun segir að öryrkjar eigi að fá 43.000 kr. í jólabónus? Jú, skerðingarnar, þeir geta ekki einu sinni gefið öllum sama jólabónus. Ef við setjum þetta líka í annað samhengi fá atvinnulausir tvöfalt hærri jólabónus, 81.000 kr., plús það að þeir fá auka með hverju barni. Þetta fá ekki öryrkjar. Það er því alltaf verið að mismuna.

Ég segi fyrir mitt leyti: Miðað við stöðu mína í dag að fá 181.000 kr. í jólabónus en 6.000 kr. síðast, þá ætti ég að fá 6.000 kr. í dag. Þeir sem eru þarna úti, sem fá 43.000 kr., þeir ættu að fá 80.000 kr. alveg eins og atvinnulausir og líka þá aukalega með börnum, skerðingalaust. Stærstur hluti öryrkja lifir og fær útborgað fyrir skatt 239.000 kr. á mánuði. Þetta eru 2,9 milljónir og ef við setjum þetta í samhengi við það sem þingmenn hafa og aðrir æðstu menn þessarar þjóðar hafa fengið á síðustu árum, þá er þetta smánarleg tala og eftir skatta eru þetta 204.000 kr. rúmar. Það lifir enginn af þessu.

Þetta gildir auðvitað líka um marga aldraða. Þeir fá ekki mikið. Stærsti hlutinn er á þeirri hungurlús sem er skömmtuð í fjárlagafrumvörpum, þessu fjárlagafrumvarpi og á undanförnum árum. Ef rétt væri gefið og við hefðum hagað okkur eins og átti að haga sér upphaflega frá 1988 í sambandi við persónuafslátturinn þá væri hann tvöfaldur í dag. Þá væru 300.000 kr. skatta- og skerðingalausar. Og væri það einhver svaka lúxus? Ég segi nei. Það getur ekki verið það, vegna þess að við hljótum líka að horfa til þess að það hlýtur að vera svolítið undarlegt í þessu samhengi að ef við tökum neysluviðmiðið, sem er hjá velferðarráðuneytinu, það lækkaði. Hugsið ykkur. Neysluviðmið velferðarráðuneytisins hefur lækkað úr 223.000 kr. niður í 180.000 kr. Ég veit ekki hvað hefur skeð hjá velferðarráðuneytinu. Hefur orðið svona gífurleg verðhjöðnun á öllu hjá þeim? Hvernig þeir gátu allt í einu lækkað framfærsluviðmiðið svona mikið er mér óskiljanlegt. Þeir hefðu átt að stórhækka það.

Síðan eru í þessu líka önnur dæmi. Húsaleiga hefur farið upp úr öllu valdi. Fólki er alltaf gert erfiðara og erfiðara fyrir að framfleyta sér. Láglaunafólk er ekki betur statt. Við verðum að átta okkur á því að þeir sem eru með um 500.000 kr. útborgað í dag, ekkert rosalega mikið, vegna þess að þegar búið er að skatta þau laun þá er tiltölulega lítið eftir. Skattar á þeim hafa hækkað á þessu tímabili um 80 milljarða. Það hlýtur að vera undarlegt í því samhengi ef við tökum líka þá sem eru með um 300.000 kr., þar hafa skattar frá 1996 hækkað um 19 milljarða. Við erum að skatta, ekki bara fátækt, við erum að skatta sárafátækt, og ég tel að það sé okkur til háborinnar skammar í þessu samfélagi okkar að gera það.

Svo er heilbrigðiskerfið, geðsjúkdómarnir. Eitt af því fáa sem virkaði og menn gátu leitað til án þess að panta tíma eða gera eitthvað, var lagt niður. SÁÁ, fólk við dauðans dyr, biðlistar, bíðið. Síðan er heilbrigðiskerfið, biðlistar eftir aðgerðum, ekki í mánuði, ekki í eitt ár heldur jafnvel tvö, þrjú ár. Uppdópaðir eða sárkvaldir, látið mig vita það. Ömurlegt að fólki sé boðið upp á slíkt. Á sama tíma eru til peningar til að borga fyrir fólk að fara til Svíþjóðar í aðgerðir sem kosta þrisvar sinnum meira, hægt væri að gera þrjár aðgerðir fyrir eina.

Síðan er annað í þessu sem við ættum líka að taka til umfjöllunar, þ.e. hvernig við ætlum að auka tekjur ríkissjóðs til að standa undir því að bæta kjör lífeyrisþega og annarra í þessu landi. Jú, við gætum t.d. byrjað á því að gera réttar fjármálaáætlanir um framkvæmdir ríkissjóðs. Flestallar stórar framkvæmdir ríkissjóðs, jafnvel sveitarfélaganna líka, fara yfir 100% fram úr. Þarna erum við að sólunda milljörðum.

Hvað segir það um okkur? Á sama tíma og Norðmenn geta verið með 15% undir í kostnaðaráætlunum þá erum við með 100% yfir. Það segir okkur að það sé mjög skrýtin fjármálastjórn og við þurfum að taka okkur virkilega á. Ég segi: Við erum 10–15 árum á eftir Norðmönnum. Við mættum læra margt af þeim og ekki bara í þessum málum heldur líka í öðrum málum. Ef við tökum þetta í heild sinni þá er kominn tími til og það á að vera sjálfsagður hlutur að við berum nógu mikla virðingu fyrir Alþingi. Því miður er hún víst í lægsta punkti núna. Hvers vegna? Jú, vegna þess að við hlustum ekki á fólkið.

Stærsti hlutinn af fólkinu þarna úti er að biðja um réttlæti, biðja um að það sé sett í forgang og að það fái að lifa með reisn. Er það hægt í þessum fjárlögum? Nei. Það væri hægt strax og takið bara dæmið af þeim sem eru að bíða með og hafa í geymslu 4 milljarða. Til hvers eru þeir að geyma þá? Jú, ef starfsgetumat sleppur í gegn, ef þetta eða hitt kemur. Af hverju taka þeir ekki þessa 4 milljarða núna strax og láta fólkið fá þá. Fólkið þarf á þessu að halda, (Gripið fram í: Heyr, heyr.) það þarf á þeim að halda núna fyrir jólin.

Í þessu samhengi má líka benda á að þeir sem voru verst settir, þeir sem fengu 70.000–80.000 kr. til að lifa af, höfðu einhverra hluta vegna verið erlendis eða eitthvað, fá ekki fullar bætur frá Tryggingastofnun ríkisins. Það er verið að leiðrétta það núna, sem betur fer. En hvað segir það um okkur? Það þurfti umboðsmann Alþingis til að fá leiðréttingu. Það þarf að leiðrétta þetta hjá því fólki fjögur ár aftur í tímann. Fjögur ár aftur í tímann er það fólk að fá leiðréttingu vegna þess að Tryggingastofnun ríkisins neitaði um rétt þess, rétt sem það átti með lögum. Þess vegna segir það okkur líka að við þurfum að skoða gaumgæfilega hvað Tryggingastofnun ríkisins er að gera og hvort verið sé að brjóta á því fólki, sem er veikast og getur ekki varið sig, á hverjum einasta degi. Ég segi: Ef við erum að því er það þingi og þjóð til háborinnar skammar. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)