149. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[20:36]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður talaði aðeins um 69. gr. almannatryggingalaga sem mig langaði að koma inn á. Áður en ég klára það samt er ein athugasemd um opinberar framkvæmdir sem fara alltaf fram yfir áætlun og stórar framkvæmdir 100% fram yfir áætlun. Það er ekki rétt, bara til að hafa það alveg á hreinu. (IngS: 200%.) — Nei, nei, það er miklu lægra, þessar fréttir sem voru unnar upp úr því voru af þeim áætlunum sem hafa farið umfram áætlun, ekki af öllum áætlunum því að þá lækkar meðaltalið. Ég bað upplýsingaþjónustu Alþingis um tölur frá því að 69. gr. almannatryggingalaga var sett, um hver væri launaþróun ársins, hver væri verðbólga ársins, hver væri hækkun samkvæmt lögunum.

Það byrjar þannig að 1998 er hækkunin frá 1997–1998 4%. Á sama tíma er verðbólga 1,66% — allt í lagi, hærri en verðbólgan — en launaþróunin er 9,37%. Þarna er það mjög skýrt í lögunum að það á að vera hærra af þessu tvennu. Næsta ár 11,28% hækkun, allt í lagi, launaþróun 6,81, verðbólga 3,44, hærra! Ókei, allt í lagi, það má líka. Fleiri ár, af 20 árum sem eru talin upp frá 1998–2016 eru fimm ár þar sem talan hækkar meira en launaþróun eða verðbólga. Í öll hin skiptin er hækkunin yfirleitt meiri samkvæmt launaþróun og munurinn eftir grófum útreikningi að gera er 50%, þ.e. launin (Forseti hringir.) samkvæmt lögum um almannatryggingar, lífeyrinn, ættu að vera 50% hærri en er núna miðað við þá útreikninga af launaþróun hefði hærri talan alltaf verið notuð.