149. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[20:38]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Ef við grípum á lofti það sem hann sagði — 50% hærri, hvað erum við þá að tala um? Við erum að tala um svo lág kjör að þessi 50% eru ekki nein rosaleg upphæð. En 50% ofan á þingmannalaun er há upphæð. Þetta sýnir bara fram á að það á að hætta þessu prósentutali. Við verðum að fara að koma okkur í krónutölu. Við erum að tala um núna 3,6% hækkun og við erum að tala um nokkra þúsundkalla fyrir skatt. Við erum að tala um 6.000–7.000 kr. fyrir skatt, þetta eru smáaurar. Setjum þetta í samhengi ef við þingmenn fáum þetta. Hvað erum við þá að tala um? Þá erum við að tala um 30.000–40.000. Þetta þykir bara sjálfsagt. Þetta er ekki sjálfsagt, þetta á ekki að vera svona. Við verðum að sjá til þess að hlutirnir séu þannig að við eigum t.d. héðan af að miða okkar hækkanir við krónutöluhækkanir. Við eigum að fá sömu krónutöluhækkanir héðan í frá og þeir sem eru á lægstu launum og lægstu töxtum, lægstir. Það er það sem ég tel að við ættum að gera. Þá værum við til fyrirmyndar.