149. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[20:40]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Við erum hér að fjalla um fjárlög fyrir árið 2019, 3. og síðustu umr. Ég ætla að stikla á stóru í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar en fyrst af öllu vil ég þakka þeim þingmönnum sem ég sit með í fjárlaganefnd fyrir samstarfið og fyrir vinnuna sem hefur verið ljómandi fín. Við höfum fengið marga gesti eins og vant er en nefndarvinnan hefur verið hreint með ágætum að mínu mati.

Mig langar að byrja á að ræða skipan ráðuneytanna og benda þeim á það sem kannski eru að horfa en hafa ekki öll gögn í höndunum, að hægt er að finna ýmislegt á netinu undir þessu máli, m.a. er varðar þær breytingartillögur sem gerðar eru. Ein af þeim er breytt skipan Stjórnarráðsins og flutningur verkefna milli ráðuneyta, þ.e. verið er að skipta upp velferðarráðuneytinu í heilbrigðisráðuneyti og félagsmálaráðuneyti sem ég tel að verði til heilla. Ég held að þetta ráðuneyti sé allt of stórt og allt of umfangsmikið — eins og komið hefur fram tekur það til sín stóran hluta af útgjöldum hverra fjárlaga — upp á að því sé vel sinnt og fái nægjanlega athygli eins og báðum þessum ráðuneytum ber.

Síðan fagna ég því að jafnréttismálin eru flutt í forsætisráðuneytið frá velferðarráðuneytinu. Sú áhersla liggur þar undir að hafa þetta svona þvert á öll ráðuneyti, enda er forsætisráðuneytið samhæfingarráðuneyti allra ráðuneyta. Ég held að málaflokknum verði gert hærra undir höfði en verið hefur og ekki veitir af.

Síðan langar mig að tala aðeins meira um praktíkina sem er að finna í öðru nefndaráliti nefndarinnar við þessa 3. umr. Hér er bara verið að fara yfir það sem gerðist milli 2. og 3. umr. en þar er m.a. leiga á fasteignum í eigu ríkisins. Verið er að gera ýmsar millifærslur vegna þess þar sem Ríkiseignir hafa með að gera margar fasteignir sem ríkið á og þeim ber m.a. að innheimta húsaleigu af ríkisaðilum sem á að standa undir viðhaldi og greiðslu fasteignagjalda, trygginga o.s.frv. Þessi leiga hefur verið mun lægri en á almennum markaði í sambærilegu húsnæði og ekki hefur verið tekið tillit til fjármagnskostnaðar vegna fjárbindingar í húsnæðinu. Það sem er undir í þessu er að leigan hækkar umtalsvert fyrir þá aðila sem leigja húsnæði sitt hjá Ríkiseignum. Meðaltalið er úr 900 kr. á fermetra í um 1.700 kr. en það er verið að gera tillögur til að þetta komi í rauninni út á núlli og stofnanirnar eiga ekki að þurfa að taka þetta af sínu rekstrarfé, þ.e. til viðbótar við það sem fyrir er. Ég tel mikilvægt að þetta sé sagt hér og því haldið til haga. Svo eru margar aðrar eignir sem eru í umsjón Ríkiseigna sem tekur lengri tíma að fara yfir. Þar er m.a. verið að tala um það stóra eignasafn sem er háskólinn, Landspítalinn og aðrar fasteignir Stjórnarráðsins sem verður farið í í öðrum áfanga. Eins og ég vísaði í er hægt að sjá sundurliðun á þessum hækkunum fjárheimilda í yfirliti nr. 3.

Svo er líka að finna hérna ýmsar aðrar millifærslur og leiðréttingar á hagrænni skiptingu.

Ég ætla að tala eins og margir aðrir hér um Íslandspóst. Það er kannski að bera í bakkafullan lækinn en ég held samt að ástæða sé til að ræða hann, þetta er mál sem var frestað á milli umræðna þar sem fjárlaganefnd vildi fyrir þá umræðu reyna að fá fleiri og meiri upplýsingar en lágu fyrir. Ég vil að við höfum það í huga að það er kannski erfitt að eiga við póstþjónustu í svo litlu landi sem Ísland er þar sem miklar vegalengdir eru, erfiðar samgöngur o.s.frv. Hins vegar breytir það því ekki að það þarf að fara ofan í saumana á þessum rekstri, ég held að öllum sé það ljóst, og allflestir eru a.m.k. sammála um það fyrir utan svo að skilgreina annað en alþjónustubyrðina sem ég held að við þekkjum flestöll.

Í nefndarálitinu er eitt og annað rakið, m.a. að þetta er ekki bara á Íslandi, þetta er líka í öðrum löndum. Við erum að niðurgreiða Kínapóstinn og sendingarnar sem margur er að kaupa. Það erum ekki bara við, það eru auðvitað mörg önnur lönd að því. Það vill svo til að Kína er flokkað sem þróunarland, svo merkilegt sem það nú er, þegar kemur að póstþjónustu og það kostar stórar fjárhæðir að greiða það niður.

Hins vegar finnst mér líka mikilvægt að segja hér að það kemur fram í nefndarálitinu að gera þarf bæði fjárlaganefnd og umhverfis- og samgöngunefnd grein fyrir þeirri fjárhagslegu endurskipulagningu sem fram þarf að fara og útfærslu á framtíðarrekstrarfyrirkomulagi áður en þær heimildir sem hér er verið að fjalla um verða nýttar. Mér finnst það vera höfuðatriðið í þessu máli. Ég vil þó segja að þegar farið verður í þessar framtíðarhagræðingaraðgerðir þykir mér sem landsbyggðarkonu afar mikilvægt, af því að það er gjarnan sagt að mesta hagræðingin sé fólgin í því að fækka minnstu einingunum í hinum dreifðu byggðum, að eitt af þessum fáu opinberu störfum sem eru að verða eftir mjög víða verði ekki tekið líka. Mér finnst að við eigum að hafa það í huga.

Það fórst fyrir að setja 50 milljónir til Sjúkrahússins á Akureyri sem við settum inn í fyrra og áttu að vera til framtíðar í rekstrargrunni sjúkrahússins. Það er hér sett fram og er af hálfu heilbrigðisráðherra ætlunin að gera það varanlegt.

Hér er líka sett inn tímabundið framlag til Hugarafls og í dag sáum við að félagsmálaráðherra hefur gert tveggja ára samning við það.

Við erum líka að efla Lýðheilsusjóð enn frekar en gert er ráð fyrir í frumvarpinu, um 18 milljónir, og mér þykir það mjög mikilvægt. Við höfum mikið talað um forvarnir á marga vegu. Lýðheilsusjóði er ætlað að efla geðheilsu á næsta ári, verkefni sem tengjast geðrækt barna, aðgerðir sem miða að heilbrigðu mataræði, svefni og hreyfingu, áfengis-, vímu- og tóbaksvarnir, verkefni sem tengjast kynheilbrigði og sem beinast að minnihlutahópum til að stuðla að jöfnuði til heilsu o.s.frv. Margt er þar undir.

Virðulegi forseti. Heilt yfir leggjum við í þessu fjárlagafrumvarpi til aukinn jöfnuð. Það er mikilvægt fyrir alla af því að í samfélögum sem búa við jöfnuð lifir fólk lengur. Börnum gengur betur í skóla, það er lægri glæpatíðni og fólki líður almennt betur. Þess vegna er jafnara samfélag gott fyrir okkur öll. Við leggjum líka áherslu á að efla heilbrigðisþjónustu og erum að gera Ísland að kyndilbera í loftslagsmálum.

Virðulegi forseti. Fjárlagafrumvarpið ber þess merki að ríkisstjórnin ætlar að standa við gefin loforð í stjórnarsáttmálanum. Í dag erum við á lokasprettinum í fjárlagaumræðunni. Þetta eru sóknarfjárlög þar sem við sækjum fram á öllum sviðum og ánægjulegt að eiga þar hlut að máli. Aukningin á milli ára er tæp 5%. Gríðarleg innviðafjárfesting af margvíslegum toga er leiðarstef þessara fjárlaga. Í tvennum fjárlögum hafa framlög til heilbrigðis- og félagsmála einna hækkað um meira en 75 milljarða. Við erum að styrkja menntakerfið, samgöngukerfið og eins og ég sagði áðan er gríðarleg innspýting í loftslagsmálin þar sem við ætlum okkur að vera leiðandi. Leiðarstefið er alls staðar það sama, að auka jöfnuð, enda vitum við að samfélag sem einkennist af jöfnuði er betra samfélag fyrir alla.

Ég ætla þó ekki að neita því að vissulega eru verkefnin ærin fram undan og þeim er hvergi nærri lokið. Þetta eru fjárlög nr. 2 á einu ári, en þessi tvennu fjárlög þessarar ríkisstjórnar styrkja stoðir velferðarkerfisins, efla innviði og gera umhverfið betra. Ég þreytist ekki á að minnast á að við ætluðum ásamt svo mörgum öðrum að leggja til 40–50 milljarða á kjörtímabilinu en við höfum gert margfalt betur en svo í þessum tvennu fjárlögum á einu ári. Við hljótum að fagna þessari eflingu heilbrigðisþjónustunnar sem svo mikið hefur verið kallað eftir.

Ég geri mér hins vegar líka grein fyrir því að við viljum sjá hlutina gerast hraðar, enda hefur þessi málaflokkur eins og margur annar setið of lengi á hakanum og ljóst að batinn tekur svolítinn tíma. Mér þykir afskaplega mikilvægt að hér er raunverulega verið að gera heilsugæsluna að fyrsta viðkomustað í heilbrigðiskerfinu. Sú hugsun skiptir t.d. máli að hafa geðheilbrigðisteymi á heilsugæslunni og bjóða þar upp á þverfaglega þjónustu sem mun létta á sérhæfðu þjónustunni þegar fram í sækir. Við erum að fjármagna geðheilbrigðisáætlun og við setjum verulega aukið fjármagn í að draga úr kostnaðarþátttöku sjúklinga sem er sérstakt réttlætismál og snýst um það að jafna aðgang að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag. Það er ekki bara réttlætismál, það eru líka kjaramál. Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni er það eitt mikilvægasta málefnið sem við getum tekist á hendur til að berjast gegn fátækt.

Það eru breytingar á skattkerfinu með hækkun persónuafsláttar og við höldum áfram á þeirri vegferð að gera skattkerfið grænna sem er í samræmi við áherslur stjórnvalda í umhverfismálum. Við hækkum barnabætur milli ára um í kringum 15% og hafa þær hækkað um 26% frá því að ríkisstjórnin tók við. Framlög til fæðingarorlofs hækka um 19% á árinu og allt miðar þetta að jöfnuði.

Við erum með mikið átak í samgöngumálum. Í þinginu er verið að vinna samgönguáætlun á fullu og vonandi sjáum við afraksturinn fljótlega. Það skiptir miklu máli eins og við sjáum, þar er þörfin gríðarleg og ljóst að það verður ærið verkefni. Vonandi náum við samstöðu um að ná utan um það verkefni.

Eins og ég segi er mikið talað um sumt, annað miklu minna. Til dæmis leggjum við til kaup á nýjum þyrlum fyrir Landhelgisgæsluna og gerum ráð fyrir að þær verði afhentar 2022. Við erum líka að leggja af stað í byggingu Húss íslenskra fræða. Annað sem minna hefur verið rætt um er 100 milljónir í barnamenningarsjóð sem ætlað er að styrkja börn til virkrar þátttöku í menningarlífinu heilt yfir, hvort sem það er í listsköpun, hönnun eða öðru, til að þeirra raddir fái að heyrast.

Við leggjum líka til 400 millj. kr. framlag til stuðnings á útgáfu íslenskra bóka, enda mikið rætt í samfélaginu um að við þurfum að vernda íslenskuna. Þess vegna kom mér á óvart að hér skyldi koma fram tillaga um að draga þennan stuðning algerlega til baka.

Virðulegi forseti. Það er verið að vinna að fyrstu áföngum í breytingum á samspili tekjuskatts og bótakerfa sem er eitt af stefnumálum ríkisstjórnarinnar og er það gert í tengslum við endurskoðun kjarasamninga. Vonandi fer það að líta dagsins ljós. Ég hef upplýsingar um að það fari að gerast. Heilt yfir litið tel ég að við séum að setja fram góð fjárlög þar sem við erum með minni álögur á launafólk, við erum að hækka barnabætur, við erum að setja heilbrigðismál í forgang. Við erum að lækka skuldir um leið og við aukum fjárfestingar í innviðum og til loftslagsmála þannig að ég tel að þessi ríkisstjórn sé öðru sinni á þessu eina ári að leggja fram mjög góð fjárlög.