149. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[20:55]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það kemur væntanlega engum hér inni á óvart að ég er ósammála því að þetta séu stórkostlega góð fjárlög. Ég ætla ekki að fara yfir það allt sem ég var ósammála í ræðu hv. þingmanns. En það sem fékk mig samt til að biðja um orðið var fullyrðing hv. þingmanns þegar hún segir að leiðarstefið sé jöfnuður, ef ég man það rétt. Það eru svo mikil öfugmæli, forseti, að það hálfa dygði. Öll jöfnunartækin eru vannýtt, öll jöfnunartæki sem stjórnvöld eiga möguleika á að nota eru vannýtt í fjárlagafrumvarpinu. Ég veit því ekki hvað það er sem á að vera svona mikill jöfnuður og hvers lags eiginlega leiðarljós það er sem hv. þingmaður vill meina að sé þarna til að gera þessi fjárlög að svona miklum jöfnunarfjárlögum.

Ég vil biðja hv. þingmann að fara vel yfir það með mér. Ég þarf ekki bara að vitna í tillögu Samfylkingarinnar hvað þetta varðar eða ræður þingmanna Samfylkingarinnar, heldur get ég lesið hér greinargerð eða yfirlýsingar miðstjórnar Alþýðusambands Íslands þar sem þetta er einmitt dregið fram og þar er þessi setning:

„Þá vantar tillögur í skattamálum sem eru þó lykillinn að kröfum um aukinn jöfnuð. […] Breyting á skattkerfinu er mikilvægur áfangi á þeirri vegferð að vinda ofan af þeirri stóru skattatilfærslu sem orðið hefur síðustu ár þar sem láglaunahópar hafa verið látnir borga reikninginn fyrir ríkasta hluta þjóðarinnar.“

Barnabætur eru skertar þannig að fólk sem er undir miðtekjum fær engar barnabætur. (Forseti hringir.) Vaxtabætur, það er ekki gert ráð fyrir neinu þar. Það er ekkert tekið á (Forseti hringir.) jöfnunarhlutverki skattkerfisins. Hvað er það í þessum fjárlögum sem er svona mikill jöfnuður í?