149. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[20:57]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vildi að hv. þingmaður hefði hlustað á ræðuna mína, ekki bara leiðandi stef. Ég fór ágætlega yfir þetta. Það er alveg ljóst að við erum ekki sammála um að hér séu öll tæki vannýtt til að jafna, alls ekki. Ég vil t.d. byrja á því að segja þegar við erum að tala um skattþrepin að við erum að taka þau skref að mörk efra þrepsins eru fest við neysluvísitölu til samræmis við neðra þrepið. Við hækkuðum fjármagnstekjuskattinn. Það má ekki gleyma því í síðustu fjárlögum. Við erum að hækka persónuafslátt og þrátt fyrir að í orðræðu hv. þingmanns núna sé orðræðan færð til varðandi barnabætur er það samt sem áður þannig að við erum að auka þá greiðslu um 1,6 milljarða. Við erum að færa skerðingarmörkin og það hlýtur að teljast jöfnuður.

Ég vil líka halda því fram, hv. þingmaður, að allt það sem stendur að því að jafna aðgengi að heilbrigðisþjónustunni, jafna aðgengi að menntakerfinu, auka greiðsluþátttökuna, þetta eru auðvitað allt saman jöfnunaraðgerðir. Það er ekki hægt að halda öðru fram en að þetta séu jöfnunaraðgerðir. Við erum að jafna aðgang barna, m.a. með því að setja fjármuni í barnamenningarsjóð. Við erum að jafna aðgang barna og allra með því að setja peninga til að styðja útgáfu íslenskra bóka, þannig að ég get bara ekki tekið undir að þetta séu ekki jöfnunaraðgerðir, hv. þingmaður, þegar við erum að efla heilsugæsluna þannig að fólk þurfi ekki að sækja sérhæfða þjónustu eða mun síður, vegna þess að um leið og við erum komin með öfluga heilsugæslu þar sem eru virk geðheilbrigðisteymi o.s.frv. þá eru það auðvitað jöfnunaraðgerðir.

Við getum svo alltaf deilt um það hvort má setja meira eða minna í hlutina. Það er aftur allt annað mál. En það að halda því fram að hér séu jöfnunartækin ekki nýtt, ég get ekki verið meira ósammála.