149. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[21:02]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Jöfnunartækin sem notuð eru úti um allan heim sem skipta máli eru í gegnum skattkerfið og eru í gegnum bótakerfið. Það er ekki verið að nýta þau almennilega. Það er algjörlega ljóst. Það er kannski verið að taka einhver pínulítil jákvæð skref í alls konar góðum málum sem nýtast litlum hópi og eru til gagns, en í stóra samhenginu er ekki verið að nýta skattkerfið almennilega.

Hv. þingmaður talar um fjármagnstekjuskattinn. Ég vil biðja hv. þingmann að segja mér hvað fjármagnstekjuskatturinn hækkar mikið, því að gert er ráð fyrir að hann hækki mikið fyrir árið 2019. Það er nefnilega ekki króna. Gert er ráð fyrir að hann lækki um 2 milljarða. Þessi lækkun, eða þessi hækkun á fjármagnstekjuskatti, var svo pínulítið skref að það átti samt í fyrstu hugmyndunum að gefa 1.400 þús. kr. Þetta er stóra jöfnunarskrefið sem hv. þingmaður vill stæra sig af fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og stjórnarmeirihlutans. Það er bara spaugilegt.

Þegar er verið að tala um að heilsugæslan sé svo frábær úti um allt land, að verið sé að gera svo góða hluti, og það væri sannarlega gott jöfnunarskref að verið væri að laga heilsugæsluna úti um allt land. En ég get talað sem landsbyggðarmaður að ekki er verið að gera það í mínum landshluta eða í mínu kjördæmi þar sem heilsugæslustöðvarnar og heilbrigðisstofnanirnar þurfa samtals rúmlega hálfan milljarð til þess að geta lifað af á árinu 2019, ef ég tek Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og Heilbrigðisstofnun Suðurlands saman.

Þetta er ekkert til að stæra sig af. Þetta er vandamál sem þarf að taka á en er ekki tekið á í þessum fjárlögum. Það er ekki tekið á þessu vandamáli. Ég lifi í 26.000 manna samfélagi og heilsugæslan er ekki að þjóna fólkinu þar. Það á að vera skylda ríkisstjórnarinnar sem hefur jöfnuð að leiðarljósi að sjá til þess að heilbrigðisstofnanirnar virki úti um allt land og fyrir alla.