149. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[21:02]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já, það er alveg rétt, kerfið á að virka, eins og ég sagði áðan líka, en þetta gengur í rauninni hægt vegna þess að kerfin voru mjög svelt og hv. þingmaður veit það, hafandi setið í ríkisstjórn og verið fjármálaráðherra, að það er ekki einfalt mál að láta hlutina ganga upp, einn, tveir og þrír. (Gripið fram í.) Þegar kemur að því að við þurfum að setja inn fjármuni og forgangsraða þeim, þá gerum við það.

Það er rangt af hv. þingmanni að halda því fram að ekki sé verið að auka fjármuni til heilbrigðismála. Hún er beinlínis að segja að hér sé ekki verið að efla heilsugæsluna og hún segir að heilsugæslan heima hjá henni sinni bara ekki fólkinu. Ég get bara ekki tekið undir það. Það má vel vera að það þurfi að bæta og gera betur. Og hér erum við að leggja til fjármuni. Þeir eru auðvitað ekki komnir í virkni, hv. þingmaður, við erum ekki búin að samþykkja fjárlögin. En ég vil halda því fram að við byrjuðum á fjárlögum yfirstandandi árs og þessi fjárlög verða líka til þess að við komum til með að reka miklu betra heilbrigðiskerfi. Það verður aldrei þannig að það verði fullkomið, það vitum við, ég og hv. þingmaður. En það hefur aldrei eins miklum fjármunum verið varið á einu bretti í þessi mál og núna, t.d. í innkaup á lyfjum eða til að styrkja geðheilbrigðismálin eða bara almennt í heilbrigðiskerfið. Við erum loksins að hefja byggingu á nýjum Landspítala, sem hv. þingmaður nefndi ekki en hefur verið til umfjöllunar í mörg ár.

Að halda því fram að við séum ekki að styrkja kerfið er beinlínis rangt. Getum við gert öðruvísi og betur? Eflaust. Og þingmaðurinn hefur aðrar hugmyndir en ég í því.

En það breytir því ekki og ég fer aldrei ofan af því að við erum að vinna gott verk. Við erum með góð fjárlög. Við erum hér með sóknarfjárlög til allra innviða.