149. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[10:45]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ásamt stjórnarsáttmála og fjármálaáætlun eru fjárlög helsta vísbending um forgangsröðun ríkisstjórna. Stjórnarsáttmálinn var myndskreyttur með háleitum markmiðum. Nú átti að ná langþráðri, félagslegri sátt, auka jöfnuð og að ráðast í stórfellda innviðauppbyggingu. Það féll hins vegar á silfrið þegar fjármálaáætlun birtist. Ríkisstjórnarflokkarnir liggja of ólíkt á hinu pólitíska litrófi til að bjartsýnar vonir um eitthvað jákvætt geti ræst. Fjármálaáætlun var byggð á sandi, m.a. vegna ofmats á stöðugleika krónunnar. Samkvæmt fjármálaáætluninni átti samneyslan sem hlutfall af landsframleiðslu þar að auki að minnka þrátt fyrir loforð um mikla innviðauppbyggingu og breytta aldurssamsetningu þjóðarinnar.

Verkalýðsfélögin gagnrýndu áætlunina harðlega og Öryrkjabandalagið kallaði hana ávísun á fátækt og eymd. Þrátt fyrir fjölmargar viðvaranir hélt ríkisstjórnin þó sínu striki og lagði svo fram meingallað fjárlagafrumvarp. Í góðæri á að gera of lítið fyrir hópa sem setið höfðu eftir í mörg ár. Samfélagsfjárfestingar eru of litlar og ekkert er heldur skeytt um að afla tekna fyrir loforðum eða til að eiga möguleika á að verja velferðarkerfið þegar það fer að kólna. Nokkrum dögum eftir framlagninguna kom líka í ljós að allt var óskhyggja, krónan byrjaði að síga og forsendur brustu. Frumvarpinu var samt sem áður ýtt áfram án þess að meiri hluti fjárlaganefndar gerði nokkrar lagfæringar.

Þegar kom að 2. umr. var manni fyrst öllum lokið. Ríkisstjórnin sjálf gerði vont frumvarp enn verra, dró úr framlögum til öryrkja, til aldraðra, í húsnæðisstuðning, hjúkrunarheimili, framhaldsskóla og ýmislegt fleira. Alþýðusambandið segir í sinni nýjustu umsögn, með leyfi:

„Fyrirséð er að núverandi stefna stjórnvalda er ósjálfbær þegar hægja tekur á vexti í efnahagslífinu. Alþýðusamband Íslands mun aldrei sætta sig við að launafólki, öldruðum og öryrkjum verði gert að axla byrðarnar af óábyrgri ríkisfjármálastefnu. Það er óásættanlegt að stjórnvöld mæti ekki kröfum verkalýðshreyfingarinnar og nýti tækifærið til að ráðast í þau miklu verkefni sem bíða; að stórbæta lífskjör, styrkja velferðina og tryggja almenningi gott húsnæði á viðráðanlegum kjörum.“

Ég hélt satt að segja að ríkisstjórnin myndi sjá að sér og draga lækkunina til baka. Hún hafði nægan tíma til þess en hlustar ekki á þjóðina. Við hér inni munum bráðum halda í jólafrí og borð okkar munu svigna, en mjög margir kvíða jólunum. Það er í rauninni absúrd að fylgjast með félagshyggjuflokki í ríkisstjórn sem kemur lítið til móts við verkalýðshreyfinguna þegar við horfum fram á hörðustu kjaraviðræður í 25 ár, og hann reynir jafnvel að réttlæta ósköpin.

Framlög til öryrkja lækka frá því sem boðað var fyrir tveimur mánuðum. Hjúkrunarheimilin þurfa áfram að búa við óviðunandi rekstrarskilyrði og heilbrigðisstofnanir úti á landi sömuleiðis. Stórátak í húsnæðismálum er hvergi að sjá og húsnæðisstuðningur lækkar meira að segja örlítið milli ára. Þá stendur enn til að auka skerðingu barnabóta hjá millitekjuhópum og lægri upphæð mun renna til vaxtabóta á næsta ári en til stóð á yfirstandandi ári. Aldraðir þurfa að bíða og sjúkrahúsþjónustan þarf miklu meiri fjármuni til að mæta þeim markmiðum sem stjórnvöld hafa þó sett sér í þessum málaflokki.

Það er nöturlegt að horfa upp á skort á viðleitni til að mæta þeim sem búa við verst kjör og viljaleysi til að ráðast gegn ójöfnuði. Ríkisstjórnin tekur ekkert mark á margítrekuðum og nýjum niðurstöðum helstu stofnana heims sem sýna að samfélögum farnast best sem búa við mikinn jöfnuð. Þar ríkir hagvöxtur, þar eru framfarir. Og jöfnuður er líka besta tryggingin fyrir hagsæld og friði. Hér duga engin vettlingatök. Við verðum að tryggja að auðnum, sem verður til vegna harðduglegs fólks og tækniframfara, verði skipt með sanngjarnari hætti. Ef skilningur stjórnvalda á erfiðleikum lág- og jafnvel millitekjufólks eykst ekki mun einfaldlega verða verulega erfitt að ná fram nýjum kjarasamningum. Verkalýðshreyfingin og atvinnulífið hafa beinlínis sagt að úrbætur og átak í húsnæðismálum sé lykillinn að því að það lánist. En þá dugar ekki að stofna bara enn einn starfshópinn.

Samfylkingin hefur lagt fram lausnir á húsnæðisvandanum í átta liðum sem unnar voru með og eftir ábendingum frá sveitarfélögum, verkalýðshreyfingunni og Íbúðalánasjóði. Þær bíða hér afgreiðslu en ráðherra málaflokksins ómakaði sig ekki einu sinni í þingsal, hvorki til að hlusta á framsöguna né til að taka þátt í umræðu. Kjarabætur síðustu ára hafa einfaldlega brunnið upp vegna hækkunar á húsnæðiskostnaði.

Við verðum að tryggja almannahagsmuni launafólks fram yfir sérhagsmuni. Það er beinlínis óforskammað að afhenda nú stórútgerðum milljarða jólagjöf meðan framlög til viðkvæmra hópa eru skert milli umræðna hér.

Í skattamálum vantar svar við kröfum um aukinn jöfnuð. Frá 2004 hafa álögur á lægstu laun hækkað meðan byrðar þeirra hæst launuðu hafa lést. Engin tilraun er gerð til að vinda ofan af þessu eins og hefði mátt ætla með VG í ríkisstjórn.

Herra forseti. Samfylkingin hefur lagt fram breytingartillögur sem miða að því að laga vond lög og leggja til örlítið meira réttlæti. Við höfum bent á leiðir til að fjármagna þær án þess að byrðar á lág- eða millitekjufólk aukist. Gagnrýni okkar og breytingartillögur grundvallast fyrst og fremst á að okkur er fullkomlega misboðið fyrir hönd þeirra hópa sem hafa það býsna skítt, ná ekki endum saman og lenda í stórkostlegum erfiðleikum ef eitthvað óvænt hendir. Þeir hafa ekki notið góðæris síðustu ára eins og við hin sem erum með feikilega háar tekjur.

Við leggjum í stuttu máli til aukin framlög til öryrkja, í stofnframlög háskóla, til aldraðra, í barnabætur, heilbrigðisstofnanir úti um land, hjúkrunarheimili og í baráttunni gegn skattsvikum. Um þetta hlýtur a.m.k. félagshyggjufólk í salnum að vera sammála.

Herra forseti. Að lokum vil ég auglýsa eftir framtíðarsýn ríkisstjórnar sem heldur um stýri skútunnar þegar við erum á fleygiferð inn í framtíð sem þarf síðast en ekki síst að byggjast á frumleika, áræðni og nýsköpun.