149. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[10:52]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Birgir Þórarinsson) (M):

Herra forseti. Þessi fjárlög eru fjárlög án lausna á brýnustu viðfangsefnum sem við blasa í þjóðfélaginu. Á tímum ófremdarástands á húsnæðismarkaði er eina lausn ríkisstjórnarinnar að bæta í húsnæðisstuðningskerfi sem virkar ekki, kerfi sem undanskilur þúsundir einstaklinga á vaxtabótum sem þurfa svo sannarlega á þeim að halda. Í þessu eins og í svo mörgu öðru er ríkisstjórnin hugmyndalaus um lausnir.

Þessi fjárlög eru draumafjárlög kerfisins, ríkisstjórnin bugtar sig og beygir gagnvart kerfinu sem stækkar sífellt. Fremstur í flokki til að stækka báknið er Sjálfstæðisflokkurinn, flokkur sem segir á tyllidögum fyrir kosningar: Burt með báknið. Að sjálfsögðu er ekkert að marka það sem þessi flokkur segir, enda hans eina markmið að vera við völd, jafnvel þó svo að hann verði að ganga í eina sæng með sósíalistum. Þetta er flokkur sem fórnaði hugsjónum sínum fyrir völd.

Á meðan hundruð einstaklinga bíða eftir liðskiptaaðgerðum má ekki semja við Klíníkina um að stytta biðlistann vegna þess að Klíníkin er einkaframtak duglegs fólks. Aðgerðir á Klíníkinni kosta það sama og á Landspítalanum. Það er ekki í anda sósíalista að styðja við bakið á duglegu fólki og að sjálfsögðu tekur Sjálfstæðisflokkurinn undir það.

Sóknin í heilbrigðiskerfinu er ekkert nema steypa í nýjan Landspítala á vitlausum stað, á sama tíma og ekkert er gert til að leysa bráðavanda vegna skorts á hjúkrunarfræðingum, vanda sem kostaði ríkissjóð 2,5 milljarða á þessu ári. Heilbrigðisþjónustan á landsbyggðinni situr enn á hakanum. Ekki er búið að leysa fráflæðisvandann, eldri borgarar komast ekki heim. Það vantar heimahjúkrun, heimaþjónustu fyrir aldraða. Miðflokkurinn flutti breytingartillögu þess efnis. Að sjálfsögðu felldi ríkisstjórnin það. Þetta kostar samfélagið mikla peninga. Spítalinn getur ekki nýtt afkastagetu sína sem skyldi.

Engin úrræði eru hjá ríkisstjórninni. Ekkert er búið í haginn fyrir komandi kjarasamninga sem allir eru sammála um að verði erfiðir.

Enn eru lækkuð gjöld á bönkunum til viðbótar við væntanlega lækkun á bankaskattinum. Nú bætast tryggingafélögin við. Þau þurfa einnig lækkun á gjöldum til hins opinbera, allt á sama tíma og ekki er hægt að hækka lífeyri til eldri borgara svo hann fylgi launaþróun eins og hann á að gera lögum samkvæmt.

Síðast en ekki síst ákveður ríkisstjórnin að skerða framlög til öryrkja og lækka gjöldin á bankana, en hækka á þá sem minna mega sín í þessu samfélagi. Það er forgangsröðun ríkisstjórnarinnar. Það er forgangsröðun ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur.

Landbúnaðurinn situr á hakanum sem fyrr á sjálfu fullveldisafmælinu. Þegar undirstaða fullveldis er öflug matvælaframleiðsla og matvælaöryggi er ríkisstjórnin áhugalaus um landbúnaðinn.

Uppbygging hjúkrunarheimila er ekki í samræmi við fjölgun í þessum hóp. Ófremdarástand ríkir í þessum málaflokki og ríkisstjórnin hefur engar lausnir frekar en fyrri daginn.

Kolefnisskatturinn er stefnulaus. Honum er ekki jafnað niður á landsmenn með sanngjörnum hætti. Það vantar heildstæða stefnu um hvernig Ísland ætlar að nota kolefnisgjöld í baráttunni við loftslagsbreytingar án þess að það bitni á landsbyggðinni eða samkeppnishæfni atvinnugreina og dragi þróttinn úr hagkerfinu.

Mikilvægt úrræði varðandi séreignarsparnað er fellt niður á næsta ári. Verð á fasteignum hér á landi hefur hækkað verulega á undanförnum árum. Í miðjum húsnæðisvandanum hefur ríkisstjórnin ákveðið að falla frá heimild til nýtingar séreignarsparnaðar til íbúðarkaupa og niðurgreiðslu íbúðarlána. Ákvörðun ríkisstjórnarinnar er óskynsamleg og gengur þvert á tillögu starfshóps sem forsætisráðherra skipaði í júní 2017 og eru það mikil vonbrigði. Miðflokkurinn leggur til breytingartillögu við frumvarpið þess efnis að heimildarákvæði til nýtingar séreignarsparnaðar til íbúðakaupa og niðurgreiðslu íbúðalána verði framlengt ótímabundið þegar ákvæðið á að renna út um mitt næsta ár. Það er mikilvægt úrræði, sérstaklega fyrir ungt fólk.

Herra forseti. Þetta eru fjárlög glataðra tækifæra. Forgangsröðunin er röng. Áherslur í skattamálum þjóna betur fjármálaöflunum, bönkunum og tryggingafélögunum en fólkinu í landinu. Miðflokkurinn hefur flutt skynsamlegar breytingartillögur til lausna. Ríkisstjórnin hefur að sjálfsögðu ekki séð sér fært að styðja þær. Miðflokkurinn styður ekki þessi fjárlög.