149. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[11:13]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Við erum við það að ljúka 3. umr. um fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2019. Eins og fest er í lög hafa breytingar þær sem við sáum við 2. umr. og svo tillögur meiri hluta hv. fjárlaganefndar við 2. og nú við 3. umr. ekki áhrif á lokaniðurstöðu um 1% afgang af vergri landsframleiðslu. Auðvitað má segja að í spá Hagstofunnar í nóvember hafi ekki falist nein stórtíðindi, í raun stöðugur hagvöxtur, en horfur eru á að verðbólgan verði lítið eitt meiri eða 3,6%, aðallega vegna veikingar krónunnar, í stað 2,9% í fyrri spá.

Heilt yfir var því ekki um að ræða neinar verulegar breytingar á efnahagshorfum heldur fremur vísbendingu um að við værum að horfa til þess sem gæti kallast jafnvægisvöxtur og mikilvægt er að náist á næstu misserum. Hagvexti er spáð 2,5% 2019 í stað 2,7% samkvæmt júníspánni og forsendum í fjárlagafrumvarpinu. Í samanburði við það erum við með kröftugri hagvaxtarár 2018 og 3,8% hagvöxt, sem skýrist fyrst og fremst af meiri hagvexti framan af ári en spáin gerði ráð fyrir, en sú spá gerði ráð fyrir 2,9%. Þannig að þrátt fyrir allt komum við inn á árið 2019 á stærri verðmætagrunni.

Það sem ég vildi segja er að heildaráhrifin af þessu við 2. og 3. umr. eru sáralítil. Heildaráhrifin eru í raun og veru engin ef við skoðum lokamarkmiðið um 1% afgang. Áformin sem birtast í frumvarpinu um að halda áfram að byggja upp innviði hafa því ekki breyst. Þetta er þó í fyrsta skipti í nokkurn tíma sem við höfum upplifað breytingu í þessa átt frá júníspá fram í nóvemberspá og fundið fyrir því að vera í gólfi ríkisfjármálastefnunnar. Það má líta það jákvæðum augum ef við horfum til þeirrar efnahagslegu stöðu sem við erum í og þeirra ábyrgu vinnubragða og aga sem þetta kallar á, að halda sig við sömu niðurstöðu um jákvæða afkomu upp á 1% af vergri landsframleiðslu.

Það segi ég vegna þess að í frumvarpinu er um að ræða verulega raunaukningu útgjalda, einnig til þess að viðhalda hóflegum hagvexti. Það mun hjálpa til við þær aðstæður sem við búum við að viðhalda háu atvinnustigi og forsendum til bættra lífskjara eins og stefnt er að og einhverjir vilja kalla mjúka lendingu frá því langa samfellda hagvaxtarskeiði sem við höfum búið við allt frá árinu 2011.

En er rétt á þessum tímapunkti hagsveiflunnar að auka ríkisútgjöld, eins og hér er sannarlega verið að gera? Það má spyrja sig að því. Eins og ég lýsti þá er svarið: Já, það er efnahagslega skynsamlegt í því samhengi að ná fram jafnvægisvexti. Það er líka mikilvægt í því samhengi að draga fram traustari stöðu ríkissjóðs en um árabil vegna þess að við ætlum að halda áfram á sömu braut, að efla innviði og greiða á sama tíma niður skuldir og draga úr vaxtabyrði ríkissjóðs.

Stefnan undanfarin misseri gerir okkur kleift að auka ríkisútgjöldin í dag. Þess vegna er ánægjulegt að sjá að við erum áfram á þeirri braut. Það er skynsamleg ríkisfjármálastefna á þessum stað í hagsveiflunni og það er skynsamlegt út frá þeim efnahagshorfum sem spár lýsa. Sú vegferð sem hæstv. ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur lagði upp í með staðfestingu stjórnarsáttmálans birtist hér í öðrum fjárlögum á fyrsta starfsári. Um leið og stefnt er áfram að efnahagslegum stöðugleika er ráðist í viðamikla innviðauppbyggingu til eflingar heilbrigðiskerfi og að því að vinna upp uppsafnaða viðhaldsþörf í samgöngukerfinu og auka áherslu á uppbyggingu menntunar, rannsókna, þróunar og nýsköpunar. Er verið að setja aukna fjármuni til að standa við þau áform? Já. Það getur enginn rengt sem skoðar tölurnar í þessu frumvarpi. Og það hefur ekkert breyst frá frumvarpi í gegnum þrjár umræður og breytingar sem ég tiltók í upphafi ræðu minnar.

Virðulegi forseti. Það er mikilvægt að hafa í huga að við erum í færum til að gera þetta núna og það er vel. En í ljósi þeirrar umræðu að við förum helst til geyst í aukningu útgjalda vil ég segja að það er mikilvægt að horfa til þess hverju fjármunirnir skila og nauðsynlegt að hanna mælikvarða til að geta hert eftirlit með því að tryggja stöðugt endurmat útgjalda og bættan ríkisrekstur til að hámarka afraksturinn af þeim fjármunum sem við leggjum til og höldum þannig áfram að efla grunnkerfi samfélagsins.

Skilum við þar með öllu því sem lagt var upp með? Nei, það verður sennilega seint. Umræðan verður oft um tölur á blaði en við vitum að á endanum snýst þetta um fólk. Við þurfum að huga frekar að verkefnum eins og uppbyggingu hjúkrunarheimila, að styrkja rekstrargrundvöll þeirra. Horfi ég þá til framkvæmda og samninga sem fram undan eru. Við þurfum að nýta þá peninga sem eiga að fara í að bæta kjör öryrkja og við þurfum að huga að þeim eldri borgara hópum sem lökust hafa kjörin.

Þrátt fyrir að auknir fjármunir fari sannarlega til sjúkrahúsanna og heilbrigðisstofnana verðum við að styrkja enn frekar heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni og huga sérstaklega að þeim þar sem fjölgun íbúa og ferðamanna hefur verið mest, eins og á Suðurnesjum og Suðurlandi. Verkefnin fara ekki frá okkur og vinnan heldur áfram. Bætt lífskjör og aukinn jöfnuður eru ekki bara markmið, þau eru nauðsynleg og æskileg fyrir efnahaginn, fyrir lýðræðið, fyrir sáttina og fyrir samfélagið.

Virðulegi forseti. Ég bið afsökunar á að fara fram yfir á tíma. Ég þakka að lokum fyrir góðar og gagnlegar umræður og þakka sérstaklega kollegum mínum í hv. fjárlaganefnd fyrir góða vinnu.