149. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[11:21]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Fátt er betri spegill á ríkisstjórn á hverjum tíma en fjárlög hennar hverju sinni. Fátt varpar meira ljósi á hvað ríkisstjórnin stendur raunverulega fyrir. Og hvernig ríkisstjórn er þetta af fjárlögum hennar að dæma? Þetta er ábyrgðarlaus ríkisstjórn þrátt fyrir allt tal um ábyrgð við stjórn ríkisfjármálanna. Þrátt fyrir allt tal um mikilvægi sveiflujöfnunar ríkisfjármála í hagstjórninni hefur þessi ríkisstjórn skrúfað frá öllum krönum ríkisútgjaldanna á tímum þenslu. Á sama tíma og Seðlabankinn hækkar vexti í baráttu sinni við aukna verðbólgu vinnur ríkisstjórnin beinlínis gegn markmiðum peningastefnunnar með gegndarlausri útgjaldaaukningu. Almenningur borgar fyrir ábyrgðarleysið með hærri vöxtum og hærri verðbólgu en ella. Seðlabankinn er síðan skilinn einn eftir með ábyrgðina á peningastefnunni. Í þessu ábyrgðarleysi er ríkisstjórnin öll samstiga. Ríkisstjórnin kórónar síðan ábyrgðarleysi sitt með því að brjóta gegn afkomumarkmiði eigin fjármálastefnu og verður þar með fyrsta ríkisstjórnin til að gera slíkt frá því að ný lög um opinber fjármál voru samþykkt. Ríkisstjórnin talar á sama tíma fjálglega um það hvað krónan sé frábær gjaldmiðill, bara ef við förum eftir leikreglum hagstjórnarinnar, en í hinu orðinu þverbrýtur ríkisstjórnin þessar sömu leikreglur.

Ábyrgðarleysið er algjört. Þessi ríkisstjórn hefur engan trúverðugleika í hagstjórninni.

Herra forseti. Þetta er ríkisstjórn sérhagsmuna, þessi ríkisstjórn er alveg sérstakur gæslumaður sérhagsmunanna. Ríkisstjórnin lækkar veiðigjöld um 5,5 milljarða á sama tíma og hún sker niður útgjöld til örorkumála á milli umræðna. Ríkisstjórnin leggur til 400 millj. kr. niðurgreiðslu á bókaútgáfu á sama tíma og hún tímir ekki að tryggja elli- og örorkulífeyrisþegum lágmarkskaupmáttaraukningu, á sama tíma og framlög til uppbyggingar og viðhalds hjúkrunarheimila eru skorin niður þrátt fyrir að biðlistar eftir hjúkrunarrýmum lengist nú sem aldrei fyrr, á sama tíma og húsnæðisstuðningur við tekjulægstu hópana minnkar á milli ára, á sama tíma og ekki er unnt að taka sálfræðiþjónustu undir greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga og svo mætti áfram telja. Skýrari getur forgangsröðun þessarar ríkisstjórnar ekki orðið. Hagsmunir útgerðarinnar, einnar arðbærustu atvinnugreinar landsins, eru metnir ofar hagsmunum velferðarkerfisins.

Ríkisstjórnin hefur slegið skjaldborg um íslensku krónuna þrátt fyrir þá staðreynd að krónan skiptir þjóðinni í tvo þjóðfélagshópa, þá sem sitja fastir í krónunni í krónulandi með tilheyrandi vaxtakostnaði, verðbólgu og gengisfellingum, og þá sem eiga þess kost að spila á og hagnast af síendurteknum sveiflum krónunnar. Öllu skýrari getur sérhagsmunagæsla þessarar ríkisstjórnar ekki orðið.

Herra forseti. Þetta er ríkisstjórn hafta og einangrunarstefnu. Þessi ríkisstjórn óttast fátt meira en frelsi í atvinnulífinu, hvort sem litið er til ótta hennar við markaðslausnir við ákvörðun veiðigjalda eða ótta hennar við aukið frelsi í innflutningi landbúnaðarafurða. Ríkisstjórnin óttast fátt meira en frjálsa samkeppni. Auknum fjármunum er varið til niðurgreiðslu ósamkeppnishæfrar atvinnustarfsemi á borð við landbúnað, póstdreifingu, ríkisútvarp og bókaútgáfu, svo dæmi séu tekin, án þess að gera hina minnstu tilraun til að meta áhrif slíkra niðurgreiðslna á það samkeppnisumhverfi sem þessi fyrirtæki eða atvinnugreinar starfa í.

Allt tal um að hér sé ríkisstjórn sem brúi breitt bil í hinu pólitíska litrófi er innantómt. Ríkisstjórnin er fullkomlega samstiga í þessum efnum, hvort sem horft er til Sjálfstæðisflokks eða Vinstri grænna.

Þetta er ríkisstjórn ríkisvæddrar heilbrigðisþjónustu. Ríkisstjórnin hefur skorið upp herör gegn einkareknum úrræðum á sviði heilbrigðismála, og andúð stjórnarinnar á einkareknum hluta heilbrigðiskerfisins fer ekki leynt. Ekki verður séð að hagkvæmnissjónarmið ráði þar för. Engin tilraun er gerð til að sýna fram á hagkvæmni eða fjárhagslegan ávinning af þessari stefnu fyrir ríkissjóð. Þvert á móti er án efa í mörgum tilfellum verið að auka verulega kostnað ríkissjóðs með þessari stefnu, enda verið að skera niður ákaflega hagkvæm og ódýr þjónustuúrræði.

Ríkisstjórnin ræðst gegn sérfræðilæknum, sker niður framlög til SÁÁ og fjölmargra annarra einkarekinna heilbrigðisúrræða sem gefið hafa góða raun. Liðskiptaaðgerðum er beint til útlanda með miklum umframkostnaði í stað þess að nýta einkarekin úrræði hér á landi sem eru fullkomlega fær um að sinna þessari þjónustu og gera þessar aðgerðir með mun hagkvæmari hætti. Fleiri dæmi mætti tína til.

Ríkisstjórnin hefur enga sýn á hagkvæmni í rekstri heilbrigðiskerfisins, að tefla saman kostum opinberra og einkarekinna úrræða til að tryggja íbúum þessa lands sem besta þjónustu með sem hagkvæmustum hætti. Þetta er ríkisstjórn sýndarmennsku en ekki framkvæmda.

Hér er talað fjálglega um stórsókn á öllum sviðum, en ekki verður séð að þeim yfirlýsingum fylgi efndir. Framlög til viðhalds vegakerfinu eru þannig langt undir útgjaldaþörfinni þrátt fyrir alla útgjaldagleðina í þessu fjárlagafrumvarpi. Ef við tökum dæmi af menntakerfinu er ekki að finna nein áform um aukin framlög til iðn- og starfsnáms þrátt fyrir ítrekaðar yfirlýsingar um hið gagnstæða. Raunar fær iðn- og starfsmenntun minni aukningu en aðrar leiðir í menntakerfinu. Ekki verður séð að stefnu ríkisstjórnarinnar í þessum efnum fylgi miklar efndir.

Hér er sett á svið mikil leiksýning um stór áform en því miður sjáum við fram á að efnahagsforsendur muni ekki standa undir óbreyttu skattstigi í þessu landi. Það er kannski stærsta blekking þessarar ríkisstjórnar, hún talar ekki hreint út um þá skattahækkunarþörf sem verður fyrir hendi eigi að standa við þau loforð sem ríkisstjórnin hefur gefið.

Viðreisn leggur fram breytingartillögur til að reyna að ráða bót á stærstu vanköntum þessa fjárlagafrumvarps. Við leggjum til að fallið verði frá 400 millj. kr. endurgreiðslu á kostnaði til bókaútgefenda, að framlög til sjúkrahúsa á landsbyggðinni verði aukin um 150 millj. kr., að Sjúkratryggingar fái 200 millj. kr. til að sinna liðskiptaaðgerðum hér á landi, að 500 millj. kr. verði veittar til uppbyggingar á hjúkrunarrýmum, að framlög til Sjálfsbjargarheimilisins verði (Forseti hringir.) hækkuð um 59 milljónir og að elli- og örorkulífeyrisþegar fái um 1.200 millj. kr. til að tryggja þeim (Forseti hringir.) lágmarkskaupmáttaraukningu á milli ára, auk þess sem framlög til Krabbameinsfélagsins verði hækkuð um (Forseti hringir.) 70 milljónir. Á móti verði hætt við að veita sérstakt framlag við uppskiptingu (Forseti hringir.) velferðarráðuneytisins og lækki framlög til þess um 162 millj. kr.

Þetta eru ekki stórar breytingar en verða vonandi til þess að bæta (Forseti hringir.) ásýnd þessara fjárlaga nokkuð. Á móti er gert ráð fyrir að fallið verði frá áformum um lækkun veiðigjalda.