149. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[11:29]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum að tala um fjárlög, þetta er lokasprettur fjárlagaumræðunnar. Í upphafi sagði hv. þm. Haraldur Benediktsson að staða ríkissjóðs væri sterk en því miður er stór svartur blettur á útgjöldum ríkissjóðs. Enn eitt árið eru þeir sem mest þurfa á hjálp að halda skildir eftir. Það liggur ljóst fyrir að fjárlög ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur munu ekki bæta kjör þeirra verst settu um eina einustu krónu. Lögbundin leiðrétting á greiðslum úr almannatryggingum er engin hækkun, eins og fulltrúar ríkisstjórnarinnar hafa haldið ítrekað fram sem er í raun skammarlegt og sérstaklega þegar það dylst engum að hér er einungis um vísitöluleiðréttingu að ræða.

Óumdeilt er að kjör öryrkja og láglaunafólks og þeirra eldri borgara sem minnst hafa á milli handanna eru í engu samræmi við almenn lífskjör í landinu. Við erum að tala um stóran hóp sem dregur fram lífið í sárri fátækt múraður inn í rammgerða fátæktargildruna sem aldrei fyrr og það í boði ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur sem hefur þó viðurkennt að fátækt fólk getur ekki beðið lengur eftir réttlæti.

Hvað á maður að segja við einstakling sem kemur til manns og segir: Ég fæ 239.000 kr. útborgaðar en til þess að borga skuldir mínar um þessi mánaðamót þarf ég 260.000 kr., 21.000 kr. meira, og þá er ekki inni í þessu fæði og klæði? Ég spyr: Hvernig í ósköpunum getum við boðið upp á þetta? Á sama tíma á að hækka hjá þessum einstaklingi um 3,6%. Það dugir ekki einu sinni fyrir broti af þessum mun, 21.000 kr., ef þessi fjárlög fara eftir lögum og reglum. Við skulum átta okkur á því að það var Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, sem sagði orðrétt 1997, með leyfi forseta:

„Það á ekki að láta nægja að miða við neysluvísitöluna. Það á jafnframt að gæta þess að huga sérstaklega að og hafa viðmiðun á launaþróuninni og þá auðvitað er bara hægt að gera það þegar launaþróunin er vænlegri kostur en vísitala neysluverðs.“

Hefur verið farið eftir þessu? Hver er staðan núna? Launavísitalan er 6% og ætti að fara til öryrkja plús 3,6%, þ.e. 9,6%, en þeir fá bara 3,6%. Enn einu sinni er verið að brjóta þetta, enn einu sinni er verið að ráðast á þá sem síst skyldi.

Hitt sem er enn ljótara í öllu ljótu er að fólk er látið borga lögbundinn lífeyrissparnað. Hvernig hann er notaður? Jú, til að skerða þá sem þurfa á því að halda, þá sem eru á lægstu launum og bótum, sérstaklega lífeyrislaunum aldraðra og öryrkja. Það er notað til að skerða jafnt frá 63% yfir í 100%.

Við borgum 181.000 í jólabónus til þingmanna. En hvað var ég með í jólabónus þegar ég var fyrir utan þing? 6.000. Af hverju fékk ég bara 6.000 kr. jólabónus? Af því að lífeyrissjóður minn sem ég varð að borga í var notaður til að skerða jólabónus. Hverjir gera svona? Ríkisstjórnir undanfarinna ára. Skilaboðin eru: Þið verðið skert og sköttuð, ekki til fátæktar, heldur til sárrar fátæktar — og það í boði ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur.

Í sjóðum voru 4 milljarðar en eru nú 2,9 og þetta er á bið. Fyrir hverja á þetta að vera? Jú, öryrkja. En það er beðið með það. Myndu einhverjir aðrir hópar þjóðfélagsins lenda í svona aðstöðu? Nei, þetta er ekki nema brotabrot af því sem allir eru búnir að lofa, allir flokkar eru búnir að lofa því að taka krónu á móti krónu skerðinguna í burtu. Hvar eru efndirnar? Þær eru engar.

Það er með ólíkindum ef við horfum á hvernig þessu hefur verið skipt undanfarið. Launaskrið undanfarinna ára þýðir á mannamáli að frá 2010–2017 fengu öryrkjar og eldri borgarar 74.000 kr. hækkun. En hvað fengum við í þinginu? 581.190 kr. Það er rúmlega hálfri milljón meira. Hvor hópurinn hefði haft meiri þörf fyrir þetta? Flokkur fólksins hefur lagt fram frumvarp sem á að tryggja útborguð 300.000 kr. lágmarkslaun, þ.e. skatta- og skerðingarlaust.

Það er sorglegt að ríkisstjórnin skuli ekki sjá sóma sinn í að taka utan um þetta réttlætismál og hrinda því í framkvæmd og það strax. Forgangsröðun okkar í sameiginlega fjármuni er í engum í takti við þarfir og óskir fólksins í landinu. Við eigum að sýna virðingu og það er verið að biðja um virðingu hér á Alþingi en meðan við komum fram við þá bræður okkar sem eru verst staddir og verst settir í þessu þjóðfélagi fáum við ekki þessa virðingu. Flokkur fólksins setur fólk í fyrsta sæti en ekki þá fáu útvöldu (Forseti hringir.) sem hér eru. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)