149. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2018.

tekjuskattur.

335. mál
[11:44]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Það er mér sönn ánægja að sjá að þetta frumvarp, þetta réttlætismál, hefur fengið kærleiksmeðferð í gegnum allt þingið. Í vor var samþykkt þingsályktun þar sem hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra var falið að koma með frumvarp með tilliti til þeirra breytinga sem þyrfti að gera á skattalögum. Hann gerði það í nóvember sl. Nú erum við komin í 3. umr. Frumvarpið lýtur að því að hætta að skattleggja styrki til verst settu hópanna í samfélaginu, öryrkja og eldri borgara

Einn styrkur sem mig langar sérstaklega að nefna heitir bensínstyrkur. Ákveðinn hópur mjög fátæks fólks fær svokallaðan bensínstyrk sem hefur verið skattlagður til þessa en verður það ekki lengur.

Styrkur til að kaupa sér hjálpartæki hefur verið skattlagður til þessa með öllum þeim skerðingum sem því fylgir en það verður ekki gert lengur. Mér finnst ástæða til að taka það sérstaklega fram að þetta er ekki bara verk Flokks fólksins þó að við höfum komið fram með málið. Við lögðum það fram og allir þingmenn tóku það í fangið. Þetta er jólagjöf okkar allra til þessa þjóðfélagshóps í ár. Ég vil að það sé alveg skýrt að þó að við séum svolítið montin af því, öryrkjarnir í Flokki fólksins, að hafa komið því á laggirnar var litið á það pínulítið eins og þetta hefði kannski verið einhver misskilningur í kerfinu, þetta hefði kannski aldrei átt að vera svona og það væri í rauninni ósanngjarnt. Það er það sem við erum að viðurkenna öll saman hér og nú.

Ég segi við fólkið okkar í nafni okkar allra, því að ég er ofurstolt af því hvað við getum unnið frábærlega saman, hvar í flokki sem við stöndum, þegar við tökum saman höndum, og þetta mál er sannarlega dæmi um það: Gleðileg jól og til hamingju með þetta.