149. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2018.

fjáraukalög 2018.

437. mál
[12:06]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra yfirferðina. Ég er með nokkrar spurningar til hans. Á bls. 46 kemur fram að veita eigi 784 milljónir í kirkjugarðasamkomulag. Það eru nokkuð óvæntar en ánægjulegar fréttir að ríkisstjórnin hafi tekið sinnaskiptum í málefni kirkjugarðanna. Getur ráðherra aðeins farið nánar út í þetta mál?

Auk þess er á bls. 46 fjallað um 48 milljarða hækkun gjalda vegna IPSAS-staðalsins. Þetta er stór leiðrétting og gera hefði átt ráð fyrir þessu í fjárlögum 2018, ég held að það sé nokkuð ljóst þar sem það lá fyrir við gerð fjárlaga fyrir 2018 að beita skyldi IPSAS-staðlinum á árinu. Þá spyr maður: Hvers vegna var það ekki gert?

Á bls. 59 kemur fram að endurmat vaxtabóta skili 1 milljarði í ríkissjóð. Þetta eru vaxtabætur sem gengu ekki út. Þá spyr maður sig hvers vegna útlánareglur hafi ekki bara verið rýmkaðar tímabundið til að nýta þennan 1 milljarð til að styðja við bakið á fólki sem þarf nauðsynlega að eignast þak yfir höfuðið. Sýnir þetta ekki, hæstv. ráðherra, að kerfið er meingallað með sínar skerðingar og tekur ekkert tillit til hækkunar á verðmæti eigna?

Hið sama á við um endurmat á elli- og örorkugreiðslum sem nemur 2 milljörðum. Það hefur ekki tekist að koma þessum peningum út. Hvers vegna voru þeir ekki notaðir? Er ekki eðlilegt að slaka á reglunum til að koma þessu út og draga úr skerðingum fyrir árið?

Á bls. 59 kemur fram aukning til Landspítalans upp á 2,5 milljarða vegna mönnunarvanda og aðgerða til að bregðast við honum. Þetta er verulega há upphæð og væri fróðlegt að vita hvort hæstv. ráðherra hafi rætt þetta við heilbrigðisráðherra. Hvað ætlar ráðherra eða ríkisstjórnin að gera til að leysa þennan vanda? Þetta hefði að sjálfsögðu átt að koma inn í vinnu nefndarinnar.

Ég sé að tíminn er liðinn. Ég fæ að koma með fleiri spurningar á eftir.