149. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2018.

fjáraukalög 2018.

437. mál
[12:08]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er augljóslega um að ræða prentvillu þegar hv. þingmaður segir kirkjugarðasamkomulagið vegna þess að alþekkt er að samkomulagið hefur gengið undir heitinu kirkjujarðasamkomulagið.

Varðandi IPSAS-staðalinn hefur verið gríðarlega umfangsmikið verkefni að innleiða staðalinn, og breyttar reikningsskilareglur sem ríkið hefur verið að taka upp hafa kostað mjög mikla vinnu, bæði í ráðuneytinu og hjá Fjársýslunni. Það er afleiðing af því að við erum smám saman að byggja upp getuna til að setja málin fram á þessum nýja grunni sem þetta stendur svona af sér á milli fjárlaga og fjáraukalaga.

Varðandi vaxtabæturnar er rétt að hagur landsmanna batnaði hraðar en menn höfðu gert ráð fyrir og þau atriði sem þar skipta máli, eins og tekjur og eiginfjárstaða, þróuðust með jákvæðari hætti en forsendur fjárlaganna gerðu ráð fyrir og það leiðir til þess að minna fer út af vaxtabótunum. Þegar málin þróast á hinn veginn bætum við í og ég vil ekki meina að þetta sé merki um að kerfið sé gallað. Ég er heldur ekki þeirrar skoðunar að við eigum að vera með einhverja tiltekna fyrirframákveðna fjárhæð sem við verðum bara hreinlega að koma út. Við þurfum að búa til réttindakerfi sem ætlum að standa við. Síðan eru fjárlögin viss áætlun um hvað muni gerast á næstu 12 mánuðum. Þetta á sem sagt við um aðrar bætur í kerfinu hjá okkur sem lúta sömu lögmálum, alveg eins og vaxtabæturnar.

Varðandi mönnunarvanda í heilbrigðiskerfinu er það alvarlegt mál sem við hljótum að þurfa að bregðast við eftir þörfum heilbrigðiskerfisins. Það er hins vegar ekki endilega mál sem er einangrað við okkur Íslendinga. Það virðist vanta (Forseti hringir.) tugi þúsunda hjúkrunarfræðinga á Norðurlöndunum. Ef við leyfum okkur að hafa Bretland með inni í þeirri mynd sýnist mér að það vanti tugi þúsunda inn í framtíðina til mæta þeim verkefnum sem bíða.