149. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2018.

fjáraukalög 2018.

437. mál
[12:12]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar spurningar sem eiga mjög rétt á sér. Uppi eru nefnilega ýmis álitamál varðandi t.d. afhendingardráttinn. Það verður bara að skoða hvernig samningar hafa verið um tafabætur vegna Vestmannaeyjaferjunnar. Hérna horfumst við sem sagt í augu við kostnað og getum sagt sem svo að hagræðið sem við ætluðum að hafa af nýju ferjunni skilar sér ekki. Ég þekki ekki ákvæðin um byggingu ferjunnar, hvort þar er gert ráð fyrir tafabótum. Það er sjálfsagt að nefndin kalli eftir skýringum á þessu.

Hið sama mætti segja um Grímseyjarferjuna. Það geta verið uppi álitamál á borð við þau sem hv. þingmaður nefnir ef áður framkvæmd viðgerð var gölluð eða verkið ekki unnið með þeim hætti sem ætlast var til. Þar geta verið uppi álitamál.

Varðandi rammaáætlanirnar er það þannig að gengisbreytingarnar valda því fyrst og fremst að fjárhæðirnar breytast svona. Ég segi bara það sama varðandi sjúkrahótelið, drátturinn sem leiðir þá til kostnaðar fyrir Landspítalann er beinn kostnaður fyrir Landspítalann. Hvernig það leggst síðan út í verksamningunum milli framkvæmdaraðilans og verktakanna er nokkuð sem ég hef ekki skýr svör við. Það er ekki sjálfgefið að þar hafi á sama tíma stofnast bótaréttur.

Varðandi lífeyrismálin eru þetta oft og tíðum mjög tæknileg mál sem sjálfsagt er að nefndin fari nánar ofan í. Við höfum á undanförnum árum yfirtekið mjög mikið af lífeyrisskuldbindingum af aðilum í heilbrigðisþjónustunni (Forseti hringir.) sem hafa fjármagnað sig að meiri hluta til með framlögum frá ríkinu, en hér er um annars konar mál að ræða.