149. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2018.

fjáraukalög 2018.

437. mál
[12:15]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra greinargóða framsögu í þessu máli. Mér sýnist við hins vegar í raun vera að horfa á sama vandann aftur og aftur, þ.e. við fáum alltaf fjárauka sem eyðir einhverjum umframafgangi sem hefur skapast í ríkisfjármálunum, mögulegu umframsvigrúmi út frá bættri afkomu frá áætlun fjárlaga. Þetta sáum við hjá hæstv. ríkisstjórn á síðasta ári og sjáum þennan leik endurtekinn núna.

Það sem ég vil aðeins staldra við í fyrstu lotu varðar endurmetna áætlun á heildarjöfnuði. Hér erum við að horfa á fjárauka upp á 56 milljarða, ef ég fer rétt með tölurnar, heildarjöfnuður er sagður batna um 4 en tekjuáætlun er hins vegar aukin um 6. Ég fæ þetta dæmi ekki til að ganga upp. Sennilega skýrist þetta af einhverjum mismunandi reikningsskilaaðferðum. Er það ekki heldur óheilbrigt ef við tökum hér í gegn með einhverjum öðrum reikningsskilaaðferðum en okkur er ætlað að gjaldfæra lífeyrisskuldbindingar eins og þær vaxa raunverulega á milli ára en við tökum það ekki inn í afkomu ríkissjóðs? Er ekki verið að fegra afkomu ríkissjóðs ef útgjöldin að meðtöldum þessum stórauknu lífeyrisútgjöldum eru miklu meiri en talið er fram hér? Ég fæ ekki séð hvernig það á að ganga upp að við afgreiðum fjárauka með auknum útgjöldum upp á tæpa 60 milljarða með áætlun um auknar tekjur upp á 6 milljarða en afkoman batni um 4? Ég fæ þetta reikningsdæmi ekki til að ganga upp en hæstv. ráðherra getur kannski útskýrt nánar fyrir mér hvernig þetta á að standast.