149. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2018.

fjáraukalög 2018.

437. mál
[12:40]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Umfang þessa fjárauka er mjög mikið og vissulega eru settar fram þær skýringar að hluti af því sé vegna breyttra reikningsskilavenja. Samt má spyrja sig þeirrar spurningar, sér í lagi varðandi lífeyrisiðgjöldin eða kostnaðaraukann vegna framlags ríkissjóðs til lífeyrisskuldbindinga, hvort ekki hefði mátt sjá fyrir að þessi breyting hefði verið ákveðin og að þessi útgjaldaliður yrði mun hærri en áætlað var í fjárlögum.

Að þessum viðbótum slepptum, þ.e. lífeyrisskuldbindingunum og afskrifuðum skattkröfum, standa eftir um 8 milljarðar í aukin útgjöld. Flest þessara útgjalda eru þess eðlis að ýmist mátti sjá þau fyrir þegar við gerð fjárlaganna, eins og t.d. kirkjujarðasamkomulagið sem við höfum tekið ítrekað fyrir í fjárauka, eða að rétt hefði verið að horfa fyrst til almenns varasjóðs. Vandi ríkisstjórnarinnar í þessu máli var auðvitað að það var búið að eyða almenna varasjóðnum með sjálfstæðum ákvörðunum um aukin útgjöld. Það hlaut nokkra gagnrýni í umræðu fjárlaganefndar á þessu ári hvernig að því var staðið.

Það mátti líka færa mjög gild og góð rök fyrir því, t.d. varðandi aukin framlög til viðhalds vegakerfisins, að í þeim útgjöldum hefði ekkert verið ófyrirséð eða óvænt heldur þvert á móti nokkuð sem hefði mátt sjá fyrir fyrir mörgum árum því að lengi hefur verið kvartað undan allt of lítilli fjármögnun og fjárveitingum til viðhaldsverkefna. Það er raunar enn svo, þrátt fyrir útgjaldaveislu ríkisstjórnarinnar á árinu 2019, að fjárveitingum til viðhaldsverkefna er mjög ábótavant miðað við uppsafnaða viðhaldsþörf vegakerfisins. Það er spurning hvort við megum eiga von á fleiri æfingum af hálfu ríkisstjórnarinnar þegar kemur að almennum varasjóði ársins 2019.

Það sem eftir stendur er í stuttu máli að með því að taka upp almennan varasjóð í fjárlagagerðinni stóð vilji löggjafans til þess að fjáraukalög myndu að stærstum hluta heyra sögunni til, þetta þyrfti ekki, framlagning frumvarps til fjáraukalaga yrði óþarfi. Það sem er vert að hafa hér í huga er, eins og kemur fram í inngangi þessa fjáraukalagafrumvarps, að fjáraukalögum er einungis ætlað að taka til óhjákvæmilegra útgjalda, þar á meðal vegna áhrifa nýrra kjarasamninga eða nýrrar löggjafar á árinu sem ekki er unnt að bregðast við með öðrum hætti samkvæmt lögum um opinber fjármál, svo sem með millifærslu fjárheimilda milli aðila og verkefna innan sama málaflokks á fjárhagsárinu eða nýta varasjóð viðkomandi málaflokks til að mæta auknum útgjöldum. Fjáraukalögum er því ekki ætlað að mæta útgjöldum til nýrra verkefna, aukins umfangs starfsemi eða rekstrarhalla einstakra málefnasviða og málaflokka umfram setta útgjaldaramma, enda ber samkvæmt lögunum að vísa slíkum tillögum um breytingar á fjárheimildum til umfjöllunar um fjárlög fyrir næsta fjárhagsár.

Ég held að það verði mjög áhugavert að máta þessi skilyrði laga um opinber fjármál við þau útgjöld sem ríkisstjórnin kemur hér með fram. Það hlýtur að verða viðfangsefni fjárlaganefndar að horfa vandlega yfir það hvort þetta skilyrði hafi verið uppfyllt og kannski má fyrst og fremst spyrja: Var gripið til einhverra ráðstafana til að vega á móti þessum kostnaðarauka? Ég hygg að svarið við þeirri spurningu sé nei, að við horfum einfaldlega upp á óbreytt vinnubrögð, þau sem tíðkuðust hér áður en lög um opinber fjármál voru sett. Í fjárauka er viðbótarafgangi ríkissjóðs einfaldlega eytt þegar hans nýtur við. Það er ekki í anda þess aukna aga í ríkisfjármálunum sem lögum um opinber fjármál var ætlað að færa okkur. Það er sama óráðsían og var alltaf í ríkisfjármálunum og er greinilega áfram á vakt þessarar ríkisstjórnar.