Bráðabirgðaútgáfa.

149. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[13:38]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þessi fjárlög eru svik við öryrkja, og eldri borgarar, ungt fólk og millistéttin eru líka skilin eftir. Hjúkrunarheimili og heilbrigðisstofnanir úti um allt land standa illa. Við því er ekki brugðist og mun það koma niður á starfsfólki og þeim sem þurfa á þjónustu þeirra að halda. Húsnæðisstuðningur stendur nánast í stað þrátt fyrir ákall verkalýðshreyfingarinnar um að brugðist verði við húsnæðisvandanum. Launafólk fær heilar 500 kr. í hækkun á persónuafslætti en stórútgerðin fær 4 milljarða frá ríkisstjórninni.

Allar tillögur Samfylkingarinnar voru felldar við 2. umr. Nú leggjum við fram átta breytingartillögur til að sýna hvað hægt er að gera margt gott og fyrir marga fyrir þá upphæð sem ríkisstjórnin vill rétta útgerðinni í landinu.

Fjárlagafrumvarpið tryggi hvorki félagslegan né efnahagslegan stöðugleika og hvorki er ráðist í nauðsynlegar fjárfestingar í innviðum né nauðsynlega tekjuöflun. Það mun koma niður á velferðarkerfinu okkar allra og ýta undir ójöfnuð í landinu.