149. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[13:41]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þessi önnur fjárlög ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur eru sóknarfjárlög. Við töluðum um fyrir kosningar í fyrra að auka þyrfti framlög til samfélagslegra verkefna upp á 40–50 milljarða. Núna, rétt rúmu ári síðar, höfum við gert það og gott betur. Útgjaldaaukningin er upp á tæpa 90 milljarða til samfélagslegra verkefna og er það vel.

Meginstef þessara fjárlaga eru aðgerðir í þágu jöfnuðar. Heilbrigðiskerfið er stærsta viðfangsefnið í samfélaginu og þar sækjum við fram á öllum stöðum. Við erum lögð af stað í uppbyggingu nýs spítala og höfum hafið stórsókn í uppbyggingu hjúkrunarheimila. Við ætlum að efla heilsugæsluna um land allt svo lítil vandamál verði ekki stór, koma á fót geðheilbrigðisteymum, svo fátt eitt sé nefnt.

En það er margt annað undir. Við leggjum af stað í sögulegt átak í umhverfismálum, átak í endurheimt votlendis, endurheimt birkiskóga, stöðvun jarðvegseyðingar og skógrækt. Svo er auðvitað gleðiefni að geta stórhækkað framlög til samgangna og fjarskiptamála. Þetta er allt í samræmi við stjórnarsáttmála okkar og til marks um að við gerum það sem við segjum. Við sækjum fram í þágu velferðar og nýsköpunar í þágu almennings. Þetta eru sóknarfjárlög sem mér er ljúft að styðja.