149. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[13:42]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þegar við samþykkjum nú fjárlög fyrir árið 2019 blasir við okkur góð staða. Staða ríkissjóðs hefur í raun aldrei verið betri, landsframleiðslan aldrei mælst hærri. Við höfum verið að lækka skuldir og búa í haginn fyrir framtíðina, náum á næsta ári markmiðum okkar um að koma ríkisskuldunum undir 30% viðmiðið. Það mun draga úr vaxtabyrði. Með ábyrgum ríkisfjármálum gerum við ríkissjóði kleift að ráðast í innviðauppbyggingu úti um allt land. Við stöndum í miklu samgönguátaki og styrkjum betur heilbrigðisþjónustuna, velferðarkerfið o.s.frv.

Við slökum líka til heimilanna í landinu með hækkun persónuafsláttar og auknum bótagreiðslum til þeirra sem minnst viðbótarsvigrúm hafa á viðkvæmum tímum. Við lækkum álögur á atvinnustarfsemina í landinu með því að taka 8 milljarða og skila aftur til fyrirtækjanna. Þannig leggjum við grunn að því að viðhalda því góða ástandi sem hefur verið í efnahagsmálum á landinu. (Forseti hringir.) Uppbygging landsins getur haldið áfram á mjög sterkum grunni á grundvelli fjárlaga ársins 2019.