Bráðabirgðaútgáfa.

149. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[13:49]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þessi málflutningur hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra var ótrúlegur. Allar tillögur Samfylkingarinnar gengu út á að auka jöfnuð í samfélaginu, bæði tillögurnar sem voru á útgjaldahlið og líka á tekjuhlið. Við vildum gera betur við öryrkja, við aldraða, við sjúklinga, við barnafólk, við skólafólk, og fjármagna þær tillögur með því að nýta jöfnunarhlutverk skattkerfisins, sem ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur gerir ekki. Við vildum skoða eignaójöfnuð í landinu og taka á honum.

Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur tekur ekki á þessum ójöfnuði sem verður meiri og meiri, heldur ýtir hún undir hann með því að nýta ekki skattkerfið til jöfnunar, lækkar skatta á fjármálafyrirtæki og lækkar veiðigjöld til útgerðarinnar sem líður sannanlega engan skort. En það gerir hins vegar fátækasta fólkið á Íslandi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)