149. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[13:51]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Í tillögum Miðflokksins við 2. umr. fjárlaga voru tillögur um að bæta skattinnheimtu. Í tillögum Miðflokksins fólst engin tillaga um skattahækkanir, þær voru fullfjármagnaðar. En komið hefur fram áður, bæði í fjárlögum í fyrra og víðar og áður, að hæstv. fjármálaráðherra hefur ekki áhuga á aukinni skattinnheimtu. Hann er búinn að sýna og segja það í ræðustóli þannig að það kemur ekkert á óvart að hann skuli koma hingað upp aftur með þetta orðfæri.

En það sem vakti sérstaka athygli mína við þessa umræðu nú, og hlýtur að vekja athygli allra öryrkja, sjúkra og eldri borgara sem hlýddu á, er að hæstv. forsætisráðherra er stolt af þessum fjárlögum. Hún er stolt af því að fátækasta fólk á Íslandi þurfi enn um hríð að bíða réttlætis.