149. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[13:56]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við erum að fara að greiða atkvæði um mjög skynsamleg fjárlög. Við erum að fara niður í hagsveiflunni. Það er eiginlega ótrúlegt hvað við höfum á tveimur árum getað aukið útgjöld mikið án þess að missa marks á sjónarmiðinu um að geta skilað afgangi, haldið áfram að ná því markmiði okkar að koma skuldaviðmiðinu undir 30% án þess að missa sjónar á því. Um leið dreifum við útgjöldunum til að byggja upp innviði og koma til móts við það fólk sem þarf mest á því að halda.

Munum við gera allt á næsta ári? Nei. En við erum að búa í haginn til að við getum gert þetta líka á næstu árum án þess að þurfa að taka lán og skuldsetja okkur að nýju. Við setjum með öðrum orðum fram mjög skynsamleg fjárlög hér og ég hlakka til að greiða atkvæði með þeim. Ég hlakka til að á næstu árum getum við aukið í innviðauppbygginguna vegna þess hversu skynsamlega við höfum haldið á fjármálavafstri síðustu ára.