149. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[13:58]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Stundum er sagt að ef fólk segir sömu hlutina nógu oft fari aðrir að trúa þeim og jafnvel það sjálft. Það er greinilegt að orðið hér í dag á að vera sóknarfjárlög. Allir þingmenn Vinstri grænna tönnlast á því. Í hverju felst það? Þau eru farin að trúa því sjálf. Staðreyndin er hins vegar sú að alvörufélagshyggjustjórn hefði strax ráðist í þann vanda sem snýr að misskiptingu í samfélaginu og deilt gæðunum öðruvísi.

Og af því að hæstv. fjármálaráðherra nefndi að Samfylkingin hefði aðeins komið með 8% breytingu og hækkun, er það að segja að í stjórnarsáttmála, í ríkisstjórn, hefðum við lagt fram allt öðruvísi fjárlög en hæstv. fjármálaráðherra. Ég átti reyndar von á því að Vinstri græn væru nær okkur en kemur í ljós.