149. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[14:14]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Ég tel í sjálfu sér ástæðulaust að endurtaka ræðu hv. þm. Guðjóns Brjánssonar sem hann hélt áðan um vandræði heilbrigðisstofnana úti á landsbyggðinni. Við í þingflokki Viðreisnar greiddum atkvæði með tillögu þeirra. Eins og var kannski fyrirséð, miðað við orðræðu meiri hlutans á þingi, var sú tillaga felld.

Hér er lögð fram önnur breytingartillaga af hálfu þingflokks Viðreisnar, öllu hófsamari, nemur tæplega þriðjungi af því sem fyrr var lagt til. En þetta er þó fjárhæð sem ákveðnar heilbrigðisstofnanir munar verulega um. Ég bind vonir við að þessi tillaga fái þó, miðað við atkvæðagreiðsluna áðan, brautargengi í þessum sal. Það munar um þessar fjárhæðir.