149. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[14:19]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Herra forseti. Ríkisstjórnin hefur lofað að styrkja starfsemi hjúkrunarheimila og líka að efla heimahjúkrun, dagþjálfun og endurhæfingu. Ekkert af þessu sjáum við í frumvarpinu. Það er engin ný sýn, engin framtíðarsýn, ekkert varðandi málefni eldri borgara. Áfram er lofað meira af sementi og steinsteypu sem er ekki einu sinni fjármögnuð. Sveitarfélögin, sem eru m.a. þeir sem starfrækja hjúkrunarheimili, fullyrða að þau greiði með þjónustunni um 1 milljarð á ári og muni ekki sæta því að óbreyttu, sem von er. Þeir sem starfrækja hjúkrunarheimilin fullyrða að það vanti minnst 30% á daggjöld til að reksturinn geti staðið undir sér. Ofan í kaupið er svo gert ráð fyrir hagræðingarkröfu upp á 0,5% sem er þó búið að klóra eitthvað yfir.

Það stefnir í hreint óefni. Því vill Samfylkingin svara og leggur til að framlög til hjúkrunarheimila hækki um 1.000 millj. kr. [Þingmaður mismælti sig, ætlaði að segja 400 millj. kr.] á árinu 2019.