149. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[15:08]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Hæstv. forseti. Það væri mögulega hægt að styðja þessa tillögu hefði ríkisstjórnin einhverja sýn á það hvernig hún ætlaði að leysa rekstrarvanda fyrirtækisins. Það hefur hún ekki. Það er ekki hlutverk ríkissjóðs að standa í lánveitingum til fyrirtækja í samkeppnisrekstri en vissulega getur ríkið lagt hlutafélögum sínum til eigið fé sé slíkt fyrirtæki í verulegum fjárhagsvanda. En þá hlýtur að þurfa að liggja fyrir eitthvert mat á því hvaða áhrif það gæti mögulega haft á samkeppnisumhverfið sem þetta fyrirtæki starfar í. Það liggur ekki fyrir í þessu tilfelli. Einhver áætlun þyrfti líka að liggja fyrir um það hvernig losa eigi fyrirtækið út úr þeim rekstrarvanda sem það á í. Það liggur ekki fyrir í þessu tilviki. Kannski þyrfti að liggja fyrir einhver sýn ríkisstjórnarinnar á framtíðarmótun rekstrarumhverfis þessa fyrirtækis þannig að það reki ekki áfram í þeim mikla rekstrarvanda sem það á við að glíma. Það liggur ekki heldur fyrir.

Því er ekki hægt að styðja þessa tillögu.