149. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[15:15]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Hæstv. forseti. Með samþykkt þessara fjárlaga sýnir ríkisstjórnin ýmislegt í sínu fari. Þessi fjárlög eru ábyrgðarlaus í fordæmalitlum útgjaldavexti á sama tíma og Seðlabankinn berst við vaxandi verðbólgu í þjóðfélaginu og hækkandi vaxtastig. Ríkisstjórnin hyggst bæta á bálið þar og stuðla að enn hærra vaxtastigi en ella, enn hærri verðbólgu en ella. Það er jólagjöf ríkisstjórnarinnar til landsmanna. Þrátt fyrir alla þessa útgjaldagleði treysti ríkisstjórnin sér samt ekki til þess að færa eldri borgurum og öryrkjum einhverja kaupmáttaraukningu á næsta ári. Nei, kjör þeirra skulu standa í stað. Á sama tíma er unnt að lækka hér veiðigjöld um fleiri milljarða. Þetta er forgangsröðun þessarar ríkisstjórnar, þetta er sérhagsmunagæsla þessarar ríkisstjórnar. En það sem er auðvitað enn athyglisverðara er að þrátt fyrir allar yfirlýsingar um meiri þverpólitíska samvinnu í þessum sal (Forseti hringir.) eru allar breytingartillögur minni hlutans felldar.