149. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2018.

Bankasýsla ríkisins.

412. mál
[15:25]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel einfaldlega að það sé hafið yfir allan vafa að starfsemi stofnunarinnar hefur verið í öllu tilliti lögmæt. Lögin eru til staðar. Hlutverk hennar er skýrt skilgreint, en það er hins vegar óheppilegt að þetta markmiðsákvæði, um niðurlagningu innan fimm ára, skuli stangast á við þann veruleika sem við blasir, þ.e. að það reyndist algerlega óraunhæft að koma bönkunum í verð innan fimm ára.

Það er hins vegar ágætt að rifja það upp að menn voru almennt sammála um að koma fjármálafyrirtækjunum aftur úr höndum ríkisins á sínum tíma og lítill ágreiningur um það þegar þessu ákvæði var komið fyrir í lögum, en í seinni tíð hafa margir fengið skyndilegan aukinn áhuga á því að jafnvel kaupa nýja banka og halda áfram að sanka að íslenska ríkinu fjármálalegum eignum, sem ég tel vera óskynsamlegt. En nú er stutt í að hvítbókin sem boðuð hefur verið um fjármálakerfið verði kynnt.

Hv. þingmaður kemur hér aðeins inn á kostnaðinn við að halda utan um og halda úti þessari stofnun. Um það vil ég segja að mér finnst að kostnaðurinn hafi verið hóflegur, sérstaklega þegar við horfum til þess hversu miklar eignir eru þarna undir. Og það hefur margoft komið fram að íslenska ríkið er, þegar horft er til hlutfalls af landsframleiðslu, langstærsti eigandinn að fjármálafyrirtækjum í Evrópu. Og að halda úti þessari litlu stofnun er í sjálfu sér ekki mikill kostnaður til að halda utan um þá þræði. Það má hins vegar spyrja sig um verkefnin, (Forseti hringir.) bæði umfang þeirra frá einum tíma til annars og hvort stofnunin hafi einfaldlega yfir að ráða, með þetta fáa starfsmenn, öllum þeim úrræðum sem á getur þurft að halda.