149. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2018.

Bankasýsla ríkisins.

412. mál
[15:28]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra fyrir þetta samtal. Afskaplega óheppilegt að þetta lagalegt tómarúm skyldi verða í kringum starfsemi Bankasýslunnar. Já, það eru orð að sönnu, en við erum nú svo heppin að við höfum okkar aðhald. Við eigum okkar ríkisendurskoðanda, sem er kannski aðalstofnunin sem í þessu tilviki væri hægt að leita til og athuga hvort það sé hafið yfir allan vafa að hér sé um lögmæti að ræða. Á þessu tímabili gerist t.d. Borgunarmálið fræga, Borgun var seld með þeim skelli sem þar var. Spurningin um fjármálafyrirtækin, nú er hún kannski miklu æstari í þau af því að þau eru farin að skila svo gríðarlegum arði að þetta er orðin gullgæs, en það er líka spurning um hvort við eigum ekki bara að eiga einn samfélagsbanka fyrir þjóðina, fyrir fólkið okkar, til þess að (Forseti hringir.) gefa því kost á því að taka lán og skapa kannski smásamkeppni við hina sérfræðingana á markaðnum.