149. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2018.

Bankasýsla ríkisins.

412. mál
[15:29]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég hlakka mjög til umræðunnar um framtíð fjármálakerfisins og þess hver hlutur ríkisins á að vera sem eigandi í þeirri framtíð. Við eigum von á nokkuð ítarlegri skýrslu um efnið innan fárra daga og hún verður vonandi sá grundvöllur umræðu sem til stóð og að var stefnt. Sú aðferð, sú leið að taka saman umræðuskjal eins og það sem hér á við, hefur kannski verið of lítið tíðkuð í íslenskum stjórnmálum og hér í samskiptum framkvæmdarvalds og þings en er hins vegar á öðrum þjóðþingum alþekkt fyrirbæri.

Ég er hins vegar, og það mun ekki koma mörgum á óvart, ekki mikið hrifinn af samfélagsbankahugmyndinni. Ég tel að við eigum að fara (Forseti hringir.) aðrar leiðir í þessu samhengi, en þó skiptir auðvitað máli hvað menn eiga við með samfélagsbanka.