149. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2018.

Bankasýsla ríkisins.

412. mál
[15:32]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég læt það ekki koma mér á óvart að menn vilji fara beint í umræðuna um framtíð fjármálakerfisins sem er svo sem ekki efni frumvarpsins sem hér er undir en tengist því vissulega með beinum hætti. Við höfum verið einhuga um að það væri nauðsynlegur grundvöllur umræðu um sölu á hlut ríkisins í fjármálafyrirtækjum að hafa tekið saman hvítbókina sem við eigum von á núna. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að meta markaðsaðstæður en grípa fyrsta tækifæri til að losa um eignarhlut ríkisins á öðrum bankanum. Ég sé fyrir mér að ríkið verði áfram leiðandi fjárfestir í hinum bankanum. Það hvenær þetta verður gert, er, eins og ég segi, nokkuð sem verður upp að vissu marki að ráðast af ytri aðstæðum. Við eigum að (Forseti hringir.) gera það þegar ytri aðstæður eru okkur hagfelldar, en síðan kunna líka að vera atriði sem við þurfum að breyta í lögum eða ramma fjármálakerfisins, sem þurfa að klárast áður en til þess kemur. Um það fjallar hvítbókin meðal annars.