149. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2018.

Bankasýsla ríkisins.

412. mál
[15:36]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef í gegnum tíðina verið sammála þeirri lagatúlkun sem hæstv. fjármálaráðherra deildi með okkur áðan, þ.e. að lagastoð starfsemi Bankasýslunnar sé alveg til staðar, sem ég tel óumdeilt nema kannski hugsanlega í þessum þingsal og kannski við kaffiborðið hér og þar úti í samfélaginu. En það kemur fram í greinargerð, sem ég tel vera rétt, að ákvæði 9. gr. feli í sér ákveðna pólitíska markmiðssetningu frekar en að vera eitthvað sem varðar lagastoð fyrir starfsemi Bankasýslunnar. Ég velti fyrir mér hvort það sé einhver munur eftir að þessi bráðabirgðaákvæði komu þarna inn, um að stofnunina skuli leggja niður þegar verkefnum hennar er lokið, því að það liggur fyrir að hvort sem er þurfi að leggja stofnunina niður með lögum. Ég velti því fyrir mér: Er þetta ekki líka pólitísk markmiðssetning sambærileg þeirri sem nú þegar eru í 9. gr.?