149. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2018.

Bankasýsla ríkisins.

412. mál
[15:39]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt ábending að það er enginn sérstakur hvati fyrir stofnunina í lögunum að drífa sig í því að ljúka verkefninu, enda er stofnunin algerlega háð löggjafarþinginu um það. Það er ákveðið fyrirkomulag sem við höfum gert ráð fyrir að þurfi að fylgja þegar um sölu á eignarhlutum ríkisins er að ræða. Ég tæki því hins vegar fagnandi að fá fleiri talsmenn þess að losa um eignarhald ríkisins af svo margvíslegum ástæðum. Ég tel í fyrsta lagi að það geti losað úr læðingi krafta í fjármálakerfinu að fá nýtt eignarhald. Ég tel í öðru lagi að það sé ekki skynsamleg ráðstöfun á fjármunum ríkisins að binda þetta mikið í fjármálakerfinu. Ég tel að því geti fylgt áhætta og ég tel að fjármunum sé betur varið til uppgreiðslu skulda og fjárfestingar í innviðum. Við gætum (Forseti hringir.) síðan haldið áfram að telja kosti þess að draga úr eignarhaldinu, en aðalatriðið er að ríkisstjórnin er sammála um að að því skuli stefnt.