149. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2018.

Bankasýsla ríkisins.

412. mál
[15:42]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við vorum þeirrar skoðunar á sínum tíma og ég mælti fyrir frumvarpi þess efnis að það væri óþarfi að hafa heila stofnun utan um þetta verkefni. Við ætluðum hins vegar að sinna sömu verkefnum í starfseiningu og við töldum að með því mætti ná fram ákveðnum sveigjanleika til að sinna verkefnunum, allt eftir því hve mikil áhersla væri á þau á hverjum tíma. Nú hefur verið látið reyna á þingviljann um þetta og það verður að segjast eins og er að umfang starfsemi Bankasýslunnar er ekki gríðarlegt. Það sem mér hefur kannski helst þótt vera gallinn er að stofnunin er til staðar þegar rólegt er í því að selja eignarhluti ríkisins eins og við sjáum, en hún hefur hins vegar brugðist mjög vel við þegar til hennar hefur þurft að leita. Þess vegna er ljóst að það mun áfram þurfa að sinna þessum verkefnum. Við vorum þeirrar skoðunar að það mætti vera meiri sveigjanleiki í umfangi starfseminnar, að með því hefði mátt spara peninga.