149. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2018.

Bankasýsla ríkisins.

412. mál
[15:43]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Já, þarna hitti hæstv. ráðherra einmitt naglann á höfuðið þegar hann talaði um að spara peninga. Ég held að það sé einmitt hægt að gera með því að leggja þessa stofnun niður eins og hann lagði til fyrir átta árum og taldi hana algjörlega óþarfa. Þannig að nú eru einkennileg sinnaskipti og maður veltir því fyrir sér hvort þetta sé eitthvert ágreiningsefni innan ríkisstjórnarinnar, hvort Sjálfstæðisflokkurinn sé hér að beygja sig undir stefnu Vinstri grænna hvað þetta varðar, að bæta í ríkisbáknið eins og Sjálfstæðisflokkurinn er svo ansi áhugasamur um.

En það sem mig langaði einnig að benda hér á er að í svona tilfellum þegar hugsanlega þarf að selja fjármálafyrirtæki o.s.frv., þá er einfaldlega hægt að leita til ráðgjafarfyrirtækja, jafnvel erlendra ráðgjafarfyrirtækja, og það verður væntanlega gert, geri ég ráð fyrir, þannig að ég sé ekki að það sé tilgangur til að halda þessari stofnun áfram gangandi. Það mætti nota þessar 60 milljónir í eitthvað annað. En hæstv. ráðherra segir að það sé gott að hafa hana þarna til staðar, það sé ekki mikið að gera. Mér finnst það engin rök í þessu máli.