149. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2018.

Bankasýsla ríkisins.

412. mál
[15:44]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur sýnt sig á þessu ári að stofnunin hefur skipt máli, þ.e. getan til að greina og veita ráðgjöf, veita aðhald stjórnum fjármálafyrirtækjanna, en veita líka ríkisstjórninni ráðgjöf í tengslum við söluna á Arion banka og við beitingu ákvæða í samningum við gömlu föllnu bankanna o.s.frv. og sömuleiðis hefur reynt á starfsemi stofnunarinnar núna í tengslum við gerð hvítbókarinnar. Við erum einnig að sigla inn í tíma þar sem það er raunhæfara að fara að tala um sölu á hlut ríkisins.

En að öðru leyti er ég held ég bara sammála hv. þingmanni um að við eigum að vera með umbúnað utan um verkefni sem hæfir verkefnunum. Í því ljósi lagði ég á sínum tíma til að þessum verkefnum yrði ekki komið fyrir í sérstakri stofnun heldur starfseiningu, en því var hafnað hér á þinginu og (Forseti hringir.) nú leggjum við fram þetta frumvarp til þess að laga ákveðið tæknilegt atriði.