149. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2018.

staðfesting ríkisreiknings 2017.

414. mál
[16:16]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um staðfestingu ríkisreiknings 2017 í samræmi við ákvæði laga um opinber fjármál. Reikningurinn er settur fram í samræmi við lög um opinber fjármál sem tóku gildi í ársbyrjun 2016. Í bráðabirgðaákvæði I í lögunum var áhrifum þeirra á uppgjör ríkisreiknings frestað til ársins 2017. Ríkisreikningur 2017 er því fyrsti reikningurinn sem gerður er upp samkvæmt nýjum lögum og í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla fyrir opinbera aðila, sem hefur gengið undir nafninu IPSAS, þ.e. þessi alþjóðlegi reikningsskilastaðall, með þeim frávikum sem þriggja ára innleiðingaráætlun gerir ráð fyrir. Í reikningnum kemur fram stofnefnahagsreikningur í ársbyrjun 2017 þar sem gerðar eru umtalsverðar breytingar á framsetningu og innihaldi frá ríkisreikningi 2016. Einnig eru lagðar fyrir Alþingi niðurstöður um stöðu stofnana og viðfangsefna í A-hluta ríkissjóðs gagnvart fjárheimildum í árslok 2017. Samkvæmt lögum um opinber fjármál skal birta ríkisreikning innan sex mánaða frá árslokum en vegna umfangs við innleiðingu ákvæða laga um opinber fjármál og breyttra reikningsskila var ríkisreikningur ekki gefinn út í fyrr en byrjun október og er nú með frumvarpi þessu lagður fyrir Alþingi til staðfestingar.  

Í ríkisreikningi kemur nú fram stofnefnahagsreikningur ríkissjóðs þann 1. janúar 2017 á grundvelli breyttra reikningsskilareglna. Frá efnahagsreikningi 31. desember 2016 er meginbreytingin sú að eignir aukast um 1.204 milljarða kr og nema alls 2.345 milljörðum kr. Hækkun eigna er vegna þess að varanlegir rekstrarfjármunir eru nú eignfærðir og afskrifaðir yfir líftíma eignanna í stað þess að vera gjaldfærðir við kaup, líkt og var gert samkvæmt eldri reikningsskilum. Þannig eru varanlegir rekstrarfjármunir í stofnefnahagsreikningi 816 milljarðar kr. Jafnframt er breytt framsetning á mati eignarhluta í félögum þannig að nú er hlutdeild ríkissjóðs í eigin fé dótturfélaga sýnd samkvæmt hlutdeildaraðferð. Því hækkar virði eignarhluta ríkissjóðs í félögum um 372 milljarða kr.

Á skuldahlið efnahagsreikningsins eru nú í fyrsta sinn sýnd áfallin orlofsskuldbinding vegna starfsmanna. Í stofnefnahagsreikningi er þannig færð meðal skammtímaskulda 17 milljarða skuld ríkissjóðs við starfsmenn. Það er orlofsskuldbindingin.

Breytingar á reikningshaldsmeðferð eigna og skulda verða til þess að eigið fé hækkar um 1.168 milljarða og fer úr því að vera neikvætt um 694 milljarða í að vera jákvætt um 474 milljarða.

Rekstrarafkoma ársins 2017 var samkvæmt ríkisreikningi jákvæð um 39 milljarða kr. Tekjur námu samtals 783 milljörðum kr., þar af voru tekjur af virðisaukaskatti um 229 milljarðar kr. og skattar á tekjur og hagnað einstaklinga um 169 milljarðar kr. Gjöld ríkissjóðs fyrir fjármagnsliði námu um 711 milljörðum kr., þar af voru rekstrartilfærslur 292 milljarðar kr., laun og launatengd gjöld 193 milljarðar kr. og gjaldfærðar lífeyrisskuldbindingar 43 milljarðar.

Annar rekstrarkostnaður nam 151 milljarði, aðrir gjaldaliðir, svo sem fjármagnstilfærslur, námu 14 milljörðum, og afskriftir og niðurfærslur 18 milljörðum.

Fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur námu 74 milljörðum, vaxtagjöld um 93 milljörðum og vaxtatekjur 19 milljörðum. Hlutdeild í afkomu félaga og samrekstrar var jákvæð um 41 milljarð.

Eignir alls samkvæmt efnahagsreikningi 31. desember 2017 námu 2.157 milljörðum og lækkuðu eignir um 188 milljarða frá stofnefnahagsreikningi 1. janúar 2017 vegna lækkunar á langtímakröfum og handbæru fé. Skuldir alls námu 1.661 milljarði og lækkuðu um 210 milljarða kr. Þannig lækkuðu langtímaskuldbindingar um 236 milljarða kr. sem setur lækkunina í ákveðið samhengi.

Eigið fé var jákvætt um 496 milljarða og hækkaði um 22 milljarða árið 2017 miðað við stofnefnahagsreikning. Handbært fé var 187 milljarðar í árslok og lækkaði um 105 milljarða á árinu.

Þess ber að geta að rekstrarafkoma ríkisreiknings er birt samkvæmt reikningsskilastaðli fyrir opinbera aðila, IPSAS, eins og ég hef áður nefnt en heildarafkoma í fjármálaáætlun og fjárlögum er birt samkvæmt hagskýrslustaðli sem við höfum kallað GFS. Báðum aðferðum er ætlað að tryggja samkvæmni og alþjóðlega samanburðarhæfni. Afkoma ríkissjóðs samkvæmt ríkisreikningi er því ekki sambærileg við afkomumarkmið fjármálaáætlunar og fjárlaga. Samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar var GFS-heildarafkoma, þ.e. á grundvelli hagskýrslustaðals, fyrir árið 2017 jákvæð um 31 milljarð og því tæpum 6 milljörðum kr. betri en fjárlög gerðu ráð fyrir sem undirstrikar sterka stöðu ríkissjóðs.

Með lögum um opinber fjármál breytist verklag við ákvörðun ráðstöfunar stöðu ríkisaðila og verkefna í árslok. Samkvæmt fjárreiðulögum var niðurstaða ríkisreiknings staðfest með lokafjárlögum og þar með hvaða fjárheimildir færðust milli ára og hverjar féllu niður. Í meginatriðum er nú fylgt sambærilegu verklagi við ákvörðun árslokastöðu og gert var við undirbúning frumvarps til lokafjárlaga áður.

Í samræmi við ákvæði 30. gr. laga um opinber fjármál eru lagðar til breytingar á fjárheimildastöðu innan tiltekinna málaflokka í árslok, eftir því hvort hlutaðeigandi málaflokkur hafi verið með útgjöld umfram fjárheimild ársins eða afgang. Heildaráhrif breytinga á fjárheimildastöðu sem fela í sér bæði niðurfellingu umframútgjalda og afgangsheimilda nema samtals 48 milljörðum.

Gert er ráð fyrir niðurfellingu á 68 milljarða kr. umframgjöldum í árslok 2017. Þar af eru umframgjöld lífeyrisskuldbindinga 40 milljarðar og afskriftir skattkrafna um 9, en þau eru af tæknilegum toga og hafa ekki áhrif á afkomu ríkissjóðs miðað við meginframsetningu í 1. gr. fjárlaga.

Gert er ráð fyrir niðurfellingu á 20 milljarða afgangsheimildum. Þar falla niður fjárheimildir almenns varasjóðs um 6 milljarða, 2 milljarða vegna hjúkrunar- og dvalarrýma og 1 milljarð vegna barnabóta. Forsenda þessara breytinga er liðir þar sem útgjöldin eru lögbundin og fela einnig í mörgum tilvikum í sér tiltekin bótaréttindi einstaklinga þannig að útgjöldum verður ekki stýrt innan ársins nema með breytingu á viðkomandi lögum. Sama gildir um liði þar sem útgjöldin lúta fremur hagrænum eða kerfislægum þáttum en fjármálastjórn tiltekins aðila.

Við ráðstöfun árslokastöðu ársins 2017 eru ekki lagðar til takmarkanir á heimildum til flutnings óráðstafaðra fjárheimilda ríkisaðila og verkefna milli ára, eins og verið hefur á undanförnum árum. Lagaákvæði sem varða flutning á umframútgjöldum eru skýr. Þau skulu færast milli ára og jafnast á móti fjárveitingum þess árs. Af því leiðir að skylt er að vinna á eldri halla á næsta fjárlagaári eftir að hann myndast.  

Virðulegi forseti. Ljóst er að breytingar á framsetningu ríkisreiknings með lögum um opinber fjármál gefa betur en fyrr til kynna stöðu ríkissjóðs á hverjum tíma. Afkoma samkvæmt ríkisreikningi ársins 2017 er jákvæð og staða ríkissjóðs sterk. Þá er heildarafkoma á hagskýrslustaðli, GFS, betri en fjárlög gerðu ráð fyrir.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. fjárlaganefndar og til 2. umr. að aflokinni þessari umræðu.