149. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2018.

virðisaukaskattur.

432. mál
[16:25]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt. Frumvarpið er á þskj. 592 og er 432. mál þingsins. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um virðisaukaskatt.

Í fyrsta lagi er lagt til að gerðar verði breytingar á lögunum þar sem kveðið verði með skýrum hætti á um gildisdag vaxtabreytinga, þ.e. þá dagsetningu sem markar vaxtatímabil inneignarvaxta og dráttarvaxta, þegar gerðar eru breytingar á virðisaukaskatti sem ná yfir fleiri en eitt uppgjörstímabil innan ársins. Komið hafa upp álitamál að þessu leytinu til sem varða gildisdag vaxtabreytinga sem nauðsynlegt er að bregðast við. Slík álitamál koma einkum fram þegar álagningu er breytt á fleiri en einu uppgjörstímabili í senn á grundvelli leiðréttingarskýrslu sem oftast er skilað með skattframtali rekstraraðila þannig að skuld og inneign myndast við sömu skattbreytingu sem aftur veldur flóknum vaxtaútreikningi. Tillögurnar eru byggðar á skýrslu starfshóps um gildisdagsetningar í virðisaukaskatti sem skilað var til fjármála- og efnahagsráðherra í júní sl.

Í öðru lagi er lagt til að lögfest verði ákvæði sem skýri nánar skattskyldu rekstraraðila alþjóðaflugvalla hér á landi til samræmis við það sem gildir í nágrannaríkjum okkar. Jafnframt er lagt til að tekin verði af tvímæli um að tiltekin þjónusta sem veitt er slíkum millilandaförum og farþegum þeirra skuli teljast til veltu sem undanþegin er virðisaukaskatti. Keflavíkurflugvöllur, Reykjavíkurflugvöllur, Akureyrarflugvöllur og Egilsstaðaflugvöllur eru skilgreindir sem alþjóðaflugvellir, auk þess að vera innanlandsflugvellir, en rekstraraðili alþjóðaflugvalla hér á landi er Isavia ohf.

Undanfarin misseri hafa komið upp álitamál um skil milli alþjóðlega þáttarins og þess innlenda hvað varðar virðisaukaskattsskil Isavia ohf. Í því sambandi hefur meðal annars verið vísað til norskra ákvæða þess efnis að velta sem tengist réttinum til að nota flugvelli fyrir loftför vegna fólksflutninga sé virðisaukaskattsskyld af hálfu rekstraraðila flugvalla. Þá er sérstaklega tilgreint í norsku virðisaukaskattslögunum að tiltekin þjónusta rekstraraðila flugvalla sem veitt er millilandaförum í atvinnurekstri, með gilt flugrekstrarleyfi, sé undanþegin virðisaukaskatti. Einnig er með svipuðum hætti kveðið á um virðisaukaskattsskyldu opinberra aðila vegna reksturs flugvalla í grannríkjum okkar í Evrópu. Með því að kveða á um skattskyldu rekstraraðila alþjóðaflugvalla verða alþjóðaflugvellir hér á landi í sömu stöðu gagnvart virðisaukaskatti og slíkir flugvellir í nágrannalöndum okkar.

Í þriðja lagi er lagt til að lögfest verði ný ákvæði um endurupptökuheimildir, endurákvarðanir og enduráætlanir á virðisaukaskatti eftir upphaflega ákvörðun virðisaukaskatts á hverju uppgjörstímabili til samræmis við gildandi löggjöf um tekjuskatt, samanber lög nr. 90/2003.

Í fjórða lagi eru lagðar til breytingar á ákvæði laganna er varða leiðréttingu á heimild til færslu innskatts vegna öflunar fólksbifreiða til nota í ferðaþjónustu en í ljós hefur komið að þær heimildir sem bætt var við lögin og í reglugerð um innskatt, eftir að fólksflutningar urðu almennt virðisaukaskattsskyldir frá og með 1. janúar 2016, eru rýmri en áformað var.

Í fimmta lagi er lagt til að kveðið verði nánar á um heimildir erlendra fyrirtækja til endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna kaupa á vöru og þjónustu hér á landi til endursölu og endanlegrar neyslu á Íslandi í því skyni að koma í veg fyrir mögulega samkeppnisröskun gagnvart innlendum rekstraraðilum. Tillagan sem hér er kynnt miðar að því að skýra þessi ákvæði frekar.

Í sjötta lagi eru lagðar til ýmsar minni háttar breytingar á lögunum eða viðbætur við lögin sem miða að auknum skýrleika og nánari skilgreiningu á tilteknum ákvæðum þeirra. Meðal annars eru lagðar til breytingar á lögunum sem varða afskráningu aðila af virðisaukaskattsskrá og skyldu aðila sem felldur hefur verið af virðisaukaskattsskrá til skila á innheimtum skatti í ríkissjóð.

Líkt og komið hefur fram eru lagðar til lagabreytingar af margvíslegum toga í þessu frumvarpi. Ekki er gert ráð fyrir að breytingarnar muni hafa veruleg áhrif á afkomu ríkissjóðs. Þó má búast við einhverjum tekjuauka verði breytingarnar samþykktar óbreyttar.

Markmið tillagna sem varða gildisdagsetningar í virðisaukaskatti er að auka skýrleika í ákvörðunum stjórnvalda um álagða vexti. Um er að ræða breytingar sem stuðla að skýrari og nákvæmari forsendum útreikninga við stjórnvaldsákvarðanir sem varða dráttarvexti og inneignarvexti ásamt því að auka réttaröryggi og jafnræði. Að því marki sem óskýrleiki eða vafi veikir almennt grundvöll skattálagningar gætu breytingar sem draga úr slíkum tilvikum því leitt til lítillega aukinna tekna fyrir ríkissjóð.

Ekki er gert ráð fyrir fjárhagslegum áhrifum á ríkissjóð vegna breytingar sem felst í því að rekstraraðilar alþjóðaflugvalla hér á landi verði skýrt tilgreindir í lögum um virðisaukaskatt sem skattskyldir vegna þjónustu við millilandaloftför og farþega þeirra. Rekstraraðilar alþjóðaflugvalla hér á landi eru nú skráðir á virðisaukaskattsskrá og verður því engin breyting þar á. Breytingin mun hins vegar leiða til aukins skýrleika á skattskyldu rekstraraðila alþjóðaflugvalla. Við skulum segja að breytingarnar séu fyrst og fremst til aukins skýrleika.

Aðhald verður hert gagnvart afskráningum á virðisaukaskattsskrá til að stuðla að því að skráin sé sem réttust á hverjum tíma, en skráning er m.a. forsenda þess að innskattur sé endurgreiddur úr ríkissjóði. Þá er lagt upp með að aðrar breytingar frumvarpsins leiði til aukins skýrleika í skattframkvæmd og samskiptum skattyfirvalda og aðila. Bætt skilvirkni í löggjöf og framkvæmd er til þess fallin að auka skilvirkni sem hefur jákvæð áhrif á tekjur ríkissjóðs af virðisaukaskatti.

Heildarfjárhæð þess tekjuauka sem þannig má búast við að breytingarnar skili ríkissjóði fer eftir fjölda og fjárhæðum í þeim mörgu tilvikum sem búast má við að þær muni segja til sín í bættri skattframkvæmd frá og með gildistöku. Ætla má að brúttóáhrif á tekjuhlið verði á bilinu 10–50 milljónir árlega, þá sérstaklega vegna skýrari ákvæða sem varða ákvörðun vaxta og afskráningu aðila af virðisaukaskattsskrá. Þar sem ákvæði frumvarpsins lúta að mestu leyti að auknum skýrleika á ákvæðum laganna er ekki gert ráð fyrir því að samþykkt frumvarpsins hafi útgjaldabreytingar í för með sér.

Virðulegi forseti. Að þessu sögðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar að aflokinni þessari umræðu og svo til 2. umr. hér á þinginu.