149. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2018.

fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra.

440. mál
[17:04]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Við ræðum hér frumvarp um fjármál stjórnmálaflokka og upplýsingaskyldu þeirra. Frumvarpið hefur verið unnið í miklu samráði og samstarfi á milli átta ólíkra flokka á Alþingi Íslendinga og því gefur augaleið að flokkarnir átta voru ekki sammála um öll efnisatriði þessa frumvarps en komu sér þó saman um það og eru allir, held ég, álíka sáttir við útkomuna.

Hvað okkur Pírata varðar, eða alla vega þá sem hér stendur, þá er um gríðarlegar framfarir að ræða með þessu frumvarpi, sérstaklega gagnvart þremur þáttum sem skipta okkur Pírata miklu máli. Í fyrsta lagi er það gagnsæi og eftirlit með hvernig fjármunum ríkissjóðs er ráðstafað, í öðru lagi er hér tekið á nafnlausum áróðri, þótt til standi að bæta um betur og vinna nánar í því fyrirkomulagi, og í þriðja lagi er rekstrargrundvöllur lítilla flokka styrktur og þar með er lýðræðislegur réttur þeirra til að geta tekið þátt í lýðræðissamfélagi okkar einnig styrktur til jafns við aðra.

Hvað þessi efnisatriði varðar þá langaði mig að draga fram það sem við erum hvað ánægðust með í þessu frumvarpi. Hvað varðar gagnsæið þá finnst mér ánægjulegt að nú standi til að birta ársreikninga í heild sinni, að nú þurfi að birta nöfn allra lögaðila sem styrkja fyrirtæki og að það séu gerðar ríkari kröfur um hvernig þessum fjármunum er ráðstafað gagnvart eftirliti, t.d. að það sé skilyrði fyrir fjárveitingum að Ríkisendurskoðun hafi borist tilhlýðileg gögn. Þetta finnst mér mjög mikilvægt fyrir gagnsæi og eftirlit eins og ég minntist á.

Hvað nafnlausan áróður varðar er hér stigið mikilvægt skref og ég horfi til þess að önnur og fleiri skref verði stigin núna í samstarfi milli framkvæmdastjóranna til að taka betur á þessum málum. Við vitum að það þarf ýmislegt fleira að gera til að taka betur á nafnlausum áróðri og níði sem fer um netheima, stundum mikið, og þetta er mikilvægt fyrsta skref í þá átt og ég vil fagna því.

Í síðasta lagi vil ég minnast á að þetta styrkir rekstrargrundvöll lítilla flokka. Það er mjög mikilvægt að allir flokkar sem ná lýðræðislegri kosningu geti haldið úti grunnstarfsemi til þess að sinna félagsmönnum sínum og málefnastarfi. Mér þykir það mjög mikilvægt og það hefur skipt okkur miklu máli í Pírötum. Það varðar beint lýðræði og það varðar jafnræði á milli flokka og það finnst mér líka mjög mikilvægt.

Ég vil kannski árétta í lokin að mér finnst það sérstaklega ánægjulegt að sjá að nú verði líka sett skylda á herðar sveitarfélaga að veita einhvers konar styrki til stjórnmálahreyfinga sem bjóða fram og að viðmiðunarreglur verði settar þar um og að það fari ekki eftir því hvar maður býr hvort stjórnmálahreyfing manns, sem nær einhverjum framgangi í sveitarstjórnarkosningum, fái einhvern stuðning til að starfa áfram að afloknum kosningum eða ekki, heldur verði settar um það viðmiðunarreglur og jafnt eigi yfir alla að ganga í þeim efnum.