149. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2018.

fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra.

440. mál
[17:07]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir framsöguna. Það eru nokkur mikilvæg atriði sem ég vil draga fram sem hafa komið fram í máli tveggja síðustu ræðumanna, ég vil eindregið taka undir þau og við í Viðreisn styðjum þau. Við höfum lagt gríðarlega mikla áherslu á, í samstarfi þvert á flokka, aukið gegnsæi í starfsemi stjórnmálasamtaka. Það skiptir miklu máli að reyna að hafa það sem mest þannig að trúverðugleiki stjórnmálanna í heild aukist og kannski veitir ekki af. Það er verið að fara inn á þær leiðir að reyna að skýra og skerpa hvað eru tengdir aðilar varðandi fjármögnun. Vissulega voru skiptar skoðanir, ég veit það, milli flokkanna um það hversu hátt hámarksframlag frá einstaklingum og lögaðilum megi vera. Á móti kemur að líka er hægt að segja að tekið hafi verið tillit til ýmissa sjónarmiða sem við lögðum fram. Ég vil fyrst og síðast nefna gegnsæið, upplýsingar, tryggja að flokkar gangi strax frá ársreikningum og þeir verði öllum aðgengilegir og að hægt verði að fara í reikninga flokkanna og skoða hvað býr að baki hverjum reikningi, það er markmiðið.

Það er tekið á ábendingum frá GRECO. Ég held að það skipti okkur máli, þetta er mikilvægt skref. En ég tek líka undir það sem kom fram áðan í máli hv. þm. Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur að þetta er einungis skref í átt að því að auka enn frekar trúverðugleika og traust á stjórnmálum. Þá skiptir máli að tengja okkur við það sem GRECO hefur margsinnis bent okkur á. Ég vil líka draga fram það sem við í Viðreisn höfum lagt mikla áherslu á, hæstv. forsætisráðherra hefur m.a. reynt að svara spurningum þess efnis, og það er varðandi nafnlausa áróðurinn sem við munum sjá. Ég spái því og ég held að ég sé engin spákona hvað það varðar, ég held að við munum sjá þetta í ríkari mæli í næstu kosningum, hvort sem er til sveitarstjórna en ekki síst á landsvísu. Við urðum vör við það, sum hver, að áróður var mjög ósmekklegur, m.a. í garð hæstv. forsætisráðherra og annarra í öðrum flokkum. Við verðum að taka á því og megum ekki gefast upp við það þó að það kunni að virka flókið. Við eigum líka að nota okkur þann þrýsting sem verið er að setja á stórfyrirtæki eins og Facebook, hvernig þau ætli að axla sína samfélagslegu ábyrgð. Þar er Evrópusambandið mjög drjúgt í því að þrýsta á að það fyrirtæki og önnur samfélagsmiðlafyrirtæki geri sitt til þess að við sitjum á endanum ekki uppi með lýðræðislega kjörna fulltrúa sem hafa beitt óprúttnum meðulum. Ég ætla ekkert endilega að tala um Trump í því sambandi, en hann kemur samt upp í hugann.

Að öðru leyti er hægt að draga margt annað fram. Það er hægt að draga það fram að það skiptir máli, m.a. fyrir litla flokka, að veita framboðum möguleika og tækifæri á því að bjóða fram til þings eða sveitarstjórna. Þau ná kannski ekki öll inn, en samt er verið að tryggja lýðræðislegan farveg, að slík framboð fái einhvern stuðning. Ég tel það rétt þó að þau nái ekki inn. Með því erum við að tryggja opna umræðu og koma ólíkum sjónarmiðum að. Ég tel það vera mjög mikilvægt.

Grunnrekstrarframlagið sem er þýðingarmikið fyrir stóra sem litla flokka — ekki síst litla flokka, það er alltaf sami kostnaður, hversu stór eða lítill sem flokkur er, við það að reka lágmarksstarfsemi fyrir flokka. Þess vegna tel ég það mikilvægt og brýnt að á því verði tekið og það er verið að gera það. Ég lít á það sem mikilvægan lið í því að byggja upp lýðræðislegt samfélag með flokkum og tek undir það sem hæstv. forsætisráðherra sagði einmitt um mikilvægi stjórnmálaflokka sem lýðræðishreyfinga í samfélaginu. Við verðum að axla þá ábyrgð að þora að taka utan um þá mikilvægu þætti og hluti sem stjórnmálaflokkar gera. Það er hægt að deila um innihald og framsetningu og fleira, en það verður að tryggja að stjórnmálaflokkar geti starfað með eðlilegum hætti og að áhrif sérhagsmunaafla verði sem minnst á flokkana.

Það er það sem ég vil líka draga fram í þessu, að við erum að stíga skref í þá átt að minnka tök sérhagsmunaafla, vonandi, á stjórnmálaflokkum, hvort sem þeir eru gamalgrónir eða ekki. Það er gríðarlega mikilvægt. Ég tel flokkana verða með þessu sjálfstæðari, óháðari og það er gríðarlega þýðingarmikið í allri lýðræðislegri umræðu.