149. löggjafarþing — 44. fundur,  10. des. 2018.

úthlutun kvóta í makríl og veiðigjöld.

[15:07]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Í síðustu viku dæmdi Hæstiréttur íslenska ríkið skaðabótaskylt vegna þess að ekki var heimilt að bregða frá lögum um veiðireynslu við úthlutun á makrílkvóta með reglugerð. Íslenska þjóðin situr líklega uppi með milljarða tjón og tilfinning þjóðarinnar getur verið að eignarhaldið á sjávarauðlindinni sé óljósara en áður. Kannski kemur dómurinn ekki sérstaklega á óvart og auðvitað ber að virða hann. Hann endurspeglar þó að við erum enn nokkrum áratugum eftir að fiskveiðistjórnarkerfið var sett á í núverandi mynd í deilum um það og sér í lagi það sem lýtur að úthlutun takmarkaðra gæða.

Mér finnst þetta líka endurspegla að ekki er hægt að aftengja umræðu um veiðigjöld frá umræðunni um úthlutunaraðferð og frá grundvallarspurningunni: Hver er réttlátur hlutur þjóðarinnar í fiskveiðiauðlindinni? Það er ljóst að mat Deloitte fyrir stefnanda á tjóni sem af reglugerðinni hlaust er mjög hátt og enn eru ekki öll kurl komin til grafar. Ef ég skil rétt er þetta sami aðili sem vann forsendur sem lágu til grundvallar lægra veiðigjaldi. Því spyr ég hæstv. forsætisráðherra hvort hún hafi velt fyrir sér hvort það sé samræmi þarna á milli.

Þá spyr ég ráðherra hvort hún telji ekki eðlilegt að framlengja núverandi lög líkt og var gert í vor og freista þess að ná breiðari sátt um málið. Þá getum við skoðað úthlutunarreglur og veiðigjöld í samhengi og tryggt ákvæði um tímabundna samninga sem flestir flokkar eru sammála um. Þá væri auðvitað nauðsynlegt að ná samstöðu um ásættanlegt auðlindaákvæði í stjórnarskrá en eins og hæstv. ráðherra veit er það sýnd veiði en ekki gefin.

Að lokum vil ég spyrja ráðherra hvernig hún sjái fyrir sér að kostnaður vegna dómsins verði fjármagnaður.