149. löggjafarþing — 44. fundur,  10. des. 2018.

úthlutun kvóta í makríl og veiðigjöld.

[15:09]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Það er ljóst að Hæstiréttur hefur talað og á síðasta orðið í þessu máli og sneri í raun við dómi héraðsdóms um sama mál. Hv. þingmaður er hér með nokkrar spurningar sem tengjast þessu máli. Í fyrsta lagi vil ég segja: Hv. þingmaður spyr hvaða áhrif þetta hafi á það veiðigjaldafrumvarp sem hér liggur inni til afgreiðslu. Mitt svar við því er að þessi dómur snýst um úthlutun aflaheimilda og þar með fiskveiðistjórnarkerfi. Hann snýst ekki um álagningu veiðigjalda. Við getum verið ósammála eða sammála um hvort rétt hafi verið á sínum tíma, 2012, að aðskilja fiskveiðistjórnarkerfið, þ.e. lög um það og lög um veiðigjöld. Það var sú ákvörðun sem Vinstrihreyfingin – grænt framboð og Samfylkingin tóku á þeim tíma í ríkisstjórn og ég tel að það hafi verið rétt ákvörðun að aðskilja þetta á þeim tíma.

Ég tel ekki að þessi dómur hafi nein áhrif á það hvernig við afgreiðum veiðigjaldafrumvarpið, sem ég tel að hafi verið vel undirbúið og snýst um að tryggja almenningi sanngjarnan hlut í auðlindarentunni. Við getum deilt um hver prósentan eigi að vera, 33% plús uppsjávarálag eða einhverjar aðrar tölur, en ég tel það vera sanngjarna aðferð. Þegar kemur að lögum um fiskveiðistjórnarkerfið liggur fyrir að það þarf auðvitað að bregðast við þessum dómi til framtíðar með breytingu á lögum.

Þessi úthlutun var á sínum tíma ákveðin með reglugerð, þ.e. makríl var úthlutað í gegnum reglugerð og lögum var ekki sérstaklega breytt enda varðaði þetta þá deilistofna og um það hefur deilan staðið. Dómurinn kallar að sjálfsögðu á að við förum yfir lagaumhverfið.

Hv. þingmaður spyr síðan líka út í fjárhagstjón en nú liggur það ekki fyrir. Það liggur ekki fyrir hvert það er og ég veit að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem er hér líka til svara, hefur ákveðið að kalla til sérfræðinga til að fara yfir næstu skref í málinu því að það skiptir auðvitað máli að mjög skynsamlega verði haldið á málum.