149. löggjafarþing — 44. fundur,  10. des. 2018.

veggjöld.

[15:14]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Á síðustu dögum þingsins er verið að reyna að bæta veggjöldum um allt land inn í samgönguáætlun. Veggjöld á allar þrjár stofnleiðirnar út úr höfuðborginni, veggjöld á öll jarðgöng, veggjöld á ýmsar framkvæmdir um allt land. Í staðinn verður framkvæmdum flýtt og jafnvel nýjum framkvæmdum bætt við. Gróflega má reikna að kostnaðurinn sem veggjöldin eiga að standa undir sé um 2,5–5 milljarðar kr. á ári eftir því hversu mörgum nýjum framkvæmdum er bætt við.

Fyrir ári síðan sagði samgönguráðherra að engin áform væru um veggjöld á helstu leiðum frá Reykjavík en síðan þá virðist ráðherra hafa skipt um skoðun. Mig langar að spyrja hæstv. samgönguráðherra um tvennt: Af hverju er lausnin núna orðin veggjöld um allt land? Hvað finnst ráðherra um að sú grundvallarbreyting á samgöngukerfi Íslendinga sem hér um ræðir fái ekki eðlilega þinglega meðferð heldur verði troðið í gegnum þingið í síðustu viku haustþings með breytingartillögu meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar í samstarfi við samgönguráðherra? Er það í samræmi við það sem segir í stjórnarsáttmála, að allar áætlanir sem eiga að halda til lengri framtíðar þurfi að gera í auknu samráði og með bættum samskiptum?