149. löggjafarþing — 44. fundur,  10. des. 2018.

áhrif fátæktar á heilsu fólks.

[15:25]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Annað sem var sláandi í þessari könnun var að rannsóknir benda til þess að banamein þeirra fátæku séu oft veikindi og sjúkdómar sem auðvelt er að koma í veg fyrir. Þau eru að deyja úr sjúkdómum sem hefði verið auðvelt að lækna ef þau hefðu skilað sér inn í læknismeðferð. Ég segi fyrir mitt leyti að það er grafalvarlegt mál ef einhverjir geta ekki leita sér læknishjálpar vegna fátæktar og það bitnar svo illa á þeim að þeir deyja úr sjúkdómum sem mjög auðvelt væri að lækna ef þeir skiluðu sér inn. Það segir sig sjálft, og ég hef því miður orðið var við það, að hjá þeim sem lifa við fátækt í dag er læknisþjónusta ekki í fyrsta, ekki í öðru og ekki í þriðja sæti. Í fyrsta, öðru og þriðja sæti er að lifa af, hafa í sig og á.